Færsluflokkur: Fjármál
Vantar leiðréttingu á leiðréttingunni :-)
19.10.2009 | 13:33
Í frétt Morgunblaðsins um gjaldþrot DSB og greiðslur úr tryggingasjóð Hollendinga, kemur núna fram eftirfarandi leiðrétting:
"ATH - tala leiðrétt um endurgreiðslu er 100 þúsund evrur ekki 10 þúsund evru líkt og fram kom í fréttinni."
Þetta er auðvitað rétt, þar sem tryggingarupphæðin í Hollandi er 100 þúsund evrur. Allir geta gert mistök og það er hið besta mál hef þau eru leiðrétt hratt og örugglega.
Eini gallinn er að greinin sjálf inniheldur ennþá upphæðina 1.8 milljónir króna, sem greinilega þarf að leiðrétta líka. Nema evran sé nú allt í einu komin niður í 18 krónur :-).
UPPFÆRSLA: Tilvísunin í 1.8 milljónir króna hefur núna verið fjarlægð úr greininni, þannig allt sem kemur þar fram núna er orðið rétt!
DSB gjaldþrota | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Af hverju virka nýju IceSave fyrirvararnir ekki eins vel og þeir gömlu?
19.10.2009 | 03:18
Með þessum breytingum á fyrirvörunum sem ríkisstjórnin kynnti í dag, þá er raunverulega verið að setja upprunalegu fyrirvarana sem Alþingi samdi, út af borðinu. Ég hef þegar fjallað í þessari færslu hvernig núna eigi alltaf að greiða vextina á hverju ári, óháð 6% hámarkinu miðað við hagvöxt í erlendri mynt.
Upprunalegi tilgangurinn með fyrirvörunum var að vernda íslenska efnahagskerfið, ef við komumst ekki upp úr kreppunni og landsframleiðslan stendur í stað eða minnkar. Það skiptir því miklu máli hvernig þetta hámarks-þak er reiknað út.
Því vaknar sú spurning sjálfkrafa upp, virka IceSave fyrirvararnir eins vel og þeir gömlu eftir þessar breytingar?
Til að svara því, þá þurfum við að skoða betur hvernig fyrirvararnir takmarka nákvæmlega hámarksgreiðsluna fyrir hvert ár. Samkvæmt útreikningum í þessari færslu, þá var landsframleiðslan fyrir 2008, 11584 milljónir evra miðað meðalgengi krónu 127.46, en fyrir fyrri helming 2009, þá var landsframleiðslan 4434 milljónir evra miðað við meðalgengið 162.77. Ef við áætlum að heildar-landsframleiðslan fyrir 2009 verði tvöföld miðað við fyrri helminginn reiknuð í evrum, þá fáum við út væntanlegar 8868 milljónir evra eða 23% lækkun frá viðmiðunar-árinu 2008 samkvæmt fyrirvörunum.
Ég setti upp reiknilíkan í Excel, sem reiknar út hve mikið við eigum að borga miðað við ákveðinn vöxt á landsframleiðslu næstu 15 árin. Ef við gerum ráð fyrir 4% hagvexti á hverju ári allt tímabilið 2010-2024, þá fáum við til dæmis út eftirfarandi hámarksgreiðslur:
Ár | Landsfr. | Hagvöxt | Aukning | Samtals | Fyrirv. | Hámark |
2008 | 11584 | |||||
2009 | 8868 | -23% | -2716 | -2716 | ||
2010 | 9223 | 4.0% | 355 | -2361 | ||
2011 | 9592 | 4.0% | 369 | -1992 | ||
2012 | 9975 | 4.0% | 384 | -1609 | ||
2013 | 10374 | 4.0% | 399 | -1210 | ||
2014 | 10789 | 4.0% | 415 | -795 | ||
2015 | 11221 | 4.0% | 432 | -363 | ||
2016 | 11670 | 4.0% | 449 | 86 | 3% | 3 |
2017 | 12136 | 4.0% | 467 | 552 | 6% | 33 |
2018 | 12622 | 4.0% | 485 | 1038 | 6% | 62 |
2019 | 13127 | 4.0% | 505 | 1543 | 6% | 93 |
2020 | 13652 | 4.0% | 525 | 2068 | 6% | 124 |
2021 | 14198 | 4.0% | 546 | 2614 | 6% | 157 |
2022 | 14766 | 4.0% | 568 | 3182 | 6% | 191 |
2023 | 15357 | 4.0% | 591 | 3773 | 6% | 226 |
2024 | 15971 | 4.0% | 614 | 4387 | 3% | 132 |
Samtals | 4387 | 1020 |
Samkvæmt þessum útreikningum, þá mundum við þurfa að borga lægri greiðslu á hverju ári 2016-2024, eða samtals "aðeins" 1020 milljónir evra (185 milljarðar króna). Þetta er samanborið við 2097 milljónir evra (388 milljarða króna) sem við mundum þurfa að borga miðað við 90% endurheimtur úr Landsbankanum samkvæmt útreikningum sem ég gerði í þessari færslu.
Til að gera næmnisgreiningu á hvernig hagvöxturinn getur haft áhrif á hámarksgreiðslurnar, þá setti ég inn í reiknislíkanið prósenturnar 1% til 8%. Hérna er tafla með niðurstöðunum:
Hagvöxtur | Hámarksgr. |
1% | 0 |
2% | 18 |
3% | 346 |
4% | 1020 |
5% | 1768 |
6% | 2596 |
7% | 3513 |
8% | 4527 |
Eins og sjá má, þá mundi mjög lár hagvöxtur 1-2% (áfram kreppa) þýða að við þyrftum nær ekkert að borga samkvæmt upprunalegu fyrirvörunum, á meðan hár hagvöxtur 6-8% (aftur góðæri) þýða að öll upphæðin með vöxtum yrði greidd.
En hvað skeður ef vextirnir eru ekki taldir með í hámarksgreiðslunum eins og núverandi breytingar gera ráð fyrir? Þar sem vextirnir verða líklega alltaf stærsti hlutinn af greiðslunni (sjá þessa færslu), þá mundi það tákna að fyrirvararnir einfaldlega virki ekki lengur og greiðslurnar verði ekki lengur háðar því hvort efnahagur Íslands geti borið þær.
Víða greint frá samkomulaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hver eru þessi efnahagslegu viðmið IceSave-samningsins sem nú er verið að breyta (eyðileggja)?
18.10.2009 | 23:58
Nú hefur ríkisstjórnin kynnt breytingar frá Bretum og Hollendingum á fyrirvörunum sem Alþingi Íslendinga samþykkti í ágúst. Áður en þetta er samþykkt, verðum við fyrst að ganga úr skugga um að þessar nýju tillögur valdi ekki mögulegum skaða á Íslensku efnahagslífi, sem upprunalegu fyrirvararnir áttu að koma í veg fyrir.
Efnahagslegu viðmiðin í fyrirvörunum sem Alþingi samþykkti með lögum 96/2009 í ágúst voru orðuð á eftirfarandi hátt í 3. grein:
http://www.althingi.is/altext/137/s/0358.html
"Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er miðuð við hámark á greiðslum úr ríkissjóði. Þetta hámark miðast á árabilinu 20172023 við 4% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og 2% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Hlutföll þessi verða helmingi lægri árin 2016 og 2024. Greiðslur skulu endurskoðaðar um leið og endanlegar tölur um verga landsframleiðslu liggja fyrir.
Vöxtur á vergri landsframleiðslu Íslands skv. 3. mgr. skal mældur frá 2008 til greiðsluárs á árabilinu 20162024 annars vegar í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og hins vegar í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Útreikningur á greiðslum skv. 3. mgr. skal byggjast á meðalgengi miðgengis Seðlabanka Íslands á pundi og evru gagnvart krónu á ársgrundvelli og mati á vergri landsframleiðslu samkvæmt skilgreiningu Eurostat.
Greiðsluskylda lánasamninganna skal aldrei vera meiri en hámark ríkisábyrgðar, sbr. 3. mgr. Nú virðist á einhverjum tíma stefna í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta."
Til þess að skoða nákvæmlega hvaða áhrif þessi efnahagslegu viðmið hafa á greiðslur okkar, þurfum við fyrst að finna út hver landsframleiðslan var fyrir grunnárið 2008 í evrum, sem þarf smá útreikning.
Skoðum fyrst landsframleiðslu Íslands síðustu árin samkvæmt tölum Hagstofunnar:
http://www.hagstofan.is/Hagtolur/Thjodhagsreikningar/Thjodhagsreikningar
og klikka síðan á:
Landsframleiðsla eftir ársfjórðungum 1997-2009
Til að ná í tölurnar sem notaðar eru í grafinu, þá valdi ég "Mælikvarði: Verðlag hvers árs". Þar sem ég gat ekki valið allt árið 2009, þá tók ég bara fyrstu tvo ársfjórðungana fyrir hvert ár (1999-2009). Ég hefði líka getað notað tölurnar fyrir fullt ár, en þá hefði ég þurft að reikna einhvern vegin upp árið 2009, sem gæti valdið mögulegri skekkju vegna árstíðar-breytinga.
Ef við skoðum grafið nánar þá virðist þetta ekki líta svo illa út. Mikil hækkun síðasta áratuginn og núna er jafnvel orðinn jákvæður vöruskiptajöfnuður, sem jafnar út að hluta lækkunina á hinum liðunum. Samkvæmt tölunum þá virðist vera aðeins smá fall í prósentum núna síðasta árið 2009. Enda hafa ýmsir pólitíkusar verið að halda því fram opinberlega að ástandið sé nú raunverulega ekki svo slæmt, þar sem landsframleiðslan hafi aðeins fallið örfá prósent frá toppnum 2007-2008.
Af hverju, er þá svona mikil kreppa á Íslandi, ef hún kemur ekki fram í landsframleiðslunni? Svarið fellst í að skoða tölurnar í erlendri mynt, til dæmis evrum. Hagstofan birtir, því miður, aðeins sínar tölur í íslenskum krónum, þannig að við þurfum að umreikna tölurnar yfir í evrur. Til þess notaði ég meðalgengi fyrstu 6 mánuði hvers árs, sem hægt er að ná í á vefsíðu Seðlabankans hérna:
http://www.sedlabanki.is/?PageID=37
Ár | Meðalgengi |
1999 | 78.77723 |
2000 | 71.37379 |
2001 | 83.27983 |
2002 | 87.06600 |
2003 | 84.46232 |
2004 | 87.45167 |
2005 | 80.69339 |
2006 | 85.42963 |
2007 | 87.58443 |
2008 | 110.12600 |
2009 | 162.77070 |
Eins og sést hefur gengið verið frekar stöðugt í kring um 70-85 krónur síðustu 10 árin fyrir utan 2008-2009, þar sem það um það bil tvöfaldaðist. Ef við umreiknum nú landsframleiðsluna yfir í evrur fyrir hvert ár, þá fáum við graf sem lítur mun verra út heldur en fyrra grafið með íslensku krónunum:
Landsframleiðslan hefur því fallið frá toppnum 2007 um rúmlega 40% þegar hún er reiknuð út í evrum. Þetta er einfaldlega kreppan í hnotskurn þar sem krónan hefur helmingast í virði!
Samkvæmt fyrirvörunum, þá er viðmiðunar-árið 2008. Ef við notum sömu aðferð þá fáum við út að landsframleiðslan fyrir allt árið 2008 var 1476 milljarðar íslenskra króna, sem miðað við meðalgengið 127.4551 á evru, gefur 11584 milljónir evra. Til samanburðar má geta að landsframleiðslan fyrsta helming 2009, var 722 milljarðar íslenskra króna, eða 4434 milljónir evra miðað við meðalgengið janúar-júní 162.7707. Ef við áætlum til einföldunar að seinni helmingur verði nokkuð álíka og fyrri helmingurinn (mögulega ónákvæmt, þar sem lokatölurnar fyrir 2009 verða ekki birtar fyrr en á næsta ári), þá þýðir þetta væntanlega landsframleiðslu upp á 8868 milljónir evra eða lækkun upp á 23% milli ára mælt í evrum.
Af hverju er allir þessir útreikningar svona nauðsynlegir? Jú, af því fyrirvararnir sem fjárlaganefnd Alþingis samdi voru raunverulega mjög snjallir og takmörkuðu greiðslu hvers árs við 6% af uppsöfnuðum hagvexti reiknuðum í pundum/evrum. Til þess að við komumst í þá stöðu að við þurfum að byrja að borga, þarf efnahagur Íslands fyrst að vinna upp þessa 23% lækkun sem þegar hefur orðið síðan 2008. Og það verður aðeins ef við komumst einhvern tíman upp úr kreppunni og/eða gengið fari að hækka aftur.
Ef fyrirvörunum er breytt núna, þannig að þessi efnahagslegu viðmið virka ekki lengur, þá getum við lent í því að borga, jafnvel þó allt sé hér enn í kalda koli.
Óviðunandi niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt 19.10.2009 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stórhættulegt ákvæði um að greiðslur vaxta falli ekki undir 6% hámarkið á hagvexti!
18.10.2009 | 21:08
Ég var að lesa yfir samanburðinum á innihaldi samninganna sem birtur var í viðauka með fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar og hnaut strax um eina stórhættulega breytingu fyrir okkur Íslendinga.
http://www.mbl.is/media/70/1770.pdf
Eitt mikilvægasta atriðið með upprunalegu fyrirvörunum, voru hin svo kölluðu efnahagslegu viðmið, sem settu þak á mögulegar greiðslur Íslands. Þetta ákvæði, að öllum hinum ákvæðunum ólöstuðum, var það sem verndaði okkur, þannig að hámarksgreiðslan yrði í mesta lagi 6% af uppsöfnuðum hagvexti frá 2008 til hvers greiðsluárs. Ef lítill sem enginn hagvöxtur verður á tímabilinu, það er áframhaldandi kreppa, þá er þetta helsta ákvæðið sem getur leyft þjóðinni að forðast gjaldþrot, vegna IceSave.
Nú segir í viðaukanum:
"Ákveðið að þak innihaldi bæði höfuðstólsgreiðslur og vexti, en þó þannig að vextir verði alltaf greiddir að lágmarki."
Þessi breyting táknar að við mundum alltaf þurfa að borga vextina að fullu á hverju ári, hvort sem það verður aukning á hagvexti eða ekki!
Nú má spyrja, af hverju skiptir þetta atriði svona miklu máli? Svarið við því er mjög einfalt.
Mest öll upphæðin sem við þurfum að borga samkvæmt samningnum eru ekki IceSave innistæðurnar sjálfar, heldur vextirnir. Eins og ég fjallaði um í síðustu færslu, þá verða heildar-vextirnir 1690 milljónir evra (312 milljarðar ISK), á meðan IceSave greiðslurnar sjálfar verða "aðeins" 407 milljónir evra (75 milljarðar ISK), ef við miðum við 90% endurheimtur úr Landsbankanum. Vextirnir eru yfir 80% af heildargreiðslunum, þannig að ef við neyðumst alltaf til að borga vextina að lágmarki, óháð hagvexti, þá virka fyrirvararnir einfaldlega ekki lengur!
Lengra varð ekki komist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jafnvel þó fengist 100% upp í forgangskröfur, mundum við samt þurfa að borga 1.5 milljarð evra (275 milljarða króna) í vexti!
14.10.2009 | 08:01
Það er alltaf kostulegt að sjá þegar fjallað er um IceSave, hve margir horfa bara á prósentuna sem fæst upp í forgangskröfur, en sleppa því að reikna með vextina sem við þurfum borga einnig af láninu. Það er auðvitað gott mál ef tekst að fá hærri upphæð greidda frá Landsbankanum, en hvort sem prósentan verður 75%, 90%, eða jafnvel 100%, þá munu vaxtagreiðslurnar alltaf verða lang-stærsti hlutinn af því sem við verðum að borga!
Það er ekkert flókið dæmi að reikna út vextinu af IceSave láninu. Heildar-upphæðin á láninu er u.þ.b. 4 milljarðar evra, sem fyrst greiðist ákveðin prósenta (oftast áætluð á bilinu 75%-90%) upp í forgangskröfur frá Landsbankanum. Til einföldunar gerum við ráð fyrir að þessar greiðslur upp í forgangskröfur verði jafnar yfir næstu 7 árin (bjartsýn spá ef eitthvað er). Árið 2016 eru eftirstöðvarnar ásamt uppreiknuðum vöxtum, færðar yfir á ríkisábyrgð, sem síðan er greidd með 32 jöfnum ársfjórðungsgreiðslum allt til 2024 ásamt vöxtum. Hérna er tafla með útlistun á heildargreiðslunum reiknað fyrir prósenturnar 75%, 90%, og 100%:
Prósenta | 75% | 90% | 100% |
Eftirstöðvar | 1018 | 407 | 0 |
Vextir 2009-16 | 1421 | 1299 | 1217 |
Ríkisábyrgð | 2439 | 1706 | 1217 |
Vextir 2016-24 | 558 | 391 | 279 |
Heildargreiðsla | 2997 | 2097 | 1496 |
Af þessu sést að jafnvel þó allt fari á besta veg og við fengjum greitt 100% upp í forgangskröfur, þá mundum við samt þurfa að borga nálægt 1.5 milljarða evra eða 275 milljarða króna í vexti. Fyrir 90%, þá verða vextirnir samtals u.þ.b. 1.7 milljarðar evra og heildargreiðslan nálægt 2.1 milljarðar evra. Þessir háu vextir, koma til út af því að samkvæmt IceSave samningnum, þá verðum við skuldbundin til að borga fulla vexti af allri upphæðinni, 4 milljörðum evra, öll 15 árin frá 2009, jafnvel þó vextir fáist ekki greiddir frá þrotabúinu.
Nánari útlistun á hvernig þessar upphæðir eru reiknaðar út má finna í þessari færslu.
90% upp í forgangskröfur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Af hverju ekki leggja Eignarskatt á aftur?
2.10.2009 | 00:29
Það er nú kannski engin undrun að margir finna eitthvað sem þeir eru ósáttir við í nýja Fjárlagafrumvarpinu. Það er alltaf mjög auðvelt að vera á móti nýjum skattaálögum og niðurskurði á útgjöldum og þjónustu ríkisins. Tekjuskattur, fjármagnstekjuskattur, auðlindagjöld, niðurskurður í samgöngumálum, heilbrigðiskerfinu, löggæslunni, og svo framvegis.
Málið er náttúrulega að ríkisstjórninni er bundinn mjög þraungur stakkur. Tekjur hafa minnkað, gjöld hafa aukist, auk þess að ríkissjóður varð fyrir miklum bússifjum í bankahruninu. Og ekki er um auðugan garð að gresja til fjármagna þennan halla, þar sem hvergi er hægt fyrir Íslendinga að fá lán lengur.
En ég held samt að ríkisstjórnin sé á ákveðnum villigötum varðandi hvar hún reynir að finna auknar skattatekjur. Í þeirri miklu kreppu sem nú er í gangi þá verður mjög erfitt að fá auknar tekjur í ríkissjóð með tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti. Skattstofnarnir þar eru einfaldlega á hraðri niðurleið, þannig að jafnvel þó skattprósentan sé hækkuð, þá munu tekjurnar samt ekki hækka mikið. Ekki er ég heldur viss um að orku, umhverfi, og auðlindagjöldin muni skila af sér miklu raunvörulega í kassann.
Einhvern tíman seinna í framtíðinni, þegar við förum loksins að komast upp úr kreppudalnum, þá mun þessar álögur mögulega geta skilað verulega meiri skatttekjum, en því miður ekki eins og efnahagsástandið er í dag. Hvað er þá til ráða? Hvar er hægt að finna auknar tekjur fyrir ríkissjóð sem hann svo nauðynlega þarf?
Þá kemur upp sú spurning, af hverju ekki setja eignaskatt á aftur? Vissulega er hægt að setja margt út á eignarskattinn (eins og alla aðra skatta). Hann er óréttláttur, það er búið að skatta tekjurnar sem mynduðu eignina, hann fellur mest á eldri borgara með húseignir sínar, o.s.frv. En eignaskatturinn hefur samt tvo kosti í dag fram yfir flest alla aðra skatta:
- Hann mundi skila raunverulegum tekjum af skattstofni sem minnkar ekki eins hratt í kreppunni.
- Hann gefur kost á að skatta þær miklu eignir sem sumir aðilar náðu að safna sér á uppgangsárunum.
Síðari kosturinn mundi mögulega jafnvel gera hann frekar vinsælan hjá þjóðinni, sem ber núna miklar byrðar og vill sjá aukið réttlæti í skattlagningu. Það er ekki auðvelt að finna góða leið til að skatta þær miklu tekjur sem auðmennirnir fengu á síðustu árum, sem oft voru borgaðir mjög litlir skattar af (stundum t.d. aðeins 10% fjármagnstekjuskattur). Með því að leggja eignaskattinn á aftur, má mögulega leiðrétta þetta misræmi.
P.S. Ef einhverjir vilja skrifa athugasemdir um hve slæm hugmynd eignaskatturinn er, vinsamlegast komið þá með raunverlegar uppástungur um hvaða skatt á að leggja í staðinn. Aðeins skattar sem geta gefið af sér að minnsta kosti tugi milljarða í auknar tekjur á ári koma til greina. Góðar niðurskurðar-tillögur eru auðvitað alltaf líka vel þegnar.
Líst illa á fjárlögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bretar og Hollendingar hafa aðeins tvo raunverulega kosti með IceSave samninginn, báðir slæmir (fyrir þá)
30.9.2009 | 16:43
Eftir að Ögmundur sagði af sér í dag, þá er orðið nokkuð öruggt að það er ekki meirihluti á þinginu til að breyta fyrirvörunum að kröfu Breta og Hollendinga. Óháð því hvort ríkisstjórnin stendur eða fellur, sem er innanlandsmál, þá má alls ekki gleyma að það skiptir mjög miklu máli hvernig nákvæmlega við svörum þessum athugasemdum um fyrirvarana.
Bretar og Hollendingar eru búnir að vera mjög snjallir, hvernig þeir hafa haldið á samningamálunum og eftirmálunum um fyrirvarana. Í stað þess að svara opinberlega, þá senda þeir okkur þessar athugasemdir með beiðni um fullan trúnað. Og hérna springur síðan allt upp í loft!
Ef við gerum ráð fyrir að þessar athugasemdir, sem ég fjallaði nánar í þessari blogg-færslu, séu alls ekki ásættanlegar, þá skiptir öllu máli að láta Bretana og Hollendingana strax vita að fyrirvararnir standa óbreyttir og að það sé ekki þingmeirihluti til að breyta þeim. Síðan þarf ríkisstjórnin (hver sem hún verður) að sitja róleg og ekki semja neitt meira um málið þar til þeir neyðast til að svara okkur opinberlega. Lærum nú einu sinni af þeim hvernig eigi að semja!
Þetta setur nefnilega Bretana og Hollendingana í frekar slæma klípu. Þeir hafa raunverulega aðeins tvo mögulega kosti í stöðunni og báðir eru frekar slæmir fyrir þá:
- Þeir geta annarsvegar samþykkt fyrirvarana án nokkurra breytinga eins og þeir hafa tvímælalaust rétt á. Þetta gerir það að verkum að allir fyrirvararnir, sem vernda nokkuð vel okkar hagsmuni, fái sjálfkrafa fullt gildi. Ég mun fara nánar út í seinna hvaða áhrif fyrirvararnir hafa á mögulegar IceSave greiðslur okkar í síðari blogg-færslu.
- Þeir geta hinsvegar ákveðið að fella upprunalega IceSave samninginn úr gildi samkvæmt ákvæðum 3.1(b) og 3.2 í samningnum sjálfum. Þetta vilja þeir líklega fyrir alla muni forðast, þar sem núverandi samningur inniheldur bókstaflega allt sem þeir vildu fá fram.
Ef þeir velja seinni kostinn, þá neyðast þeir einfaldlega til að semja upp á nýtt um IceSave (geta líka reynt að bíða lengur til að sjá hvort við gefumst upp). Eina vandamálið fyrir okkur er að á meðan munu hvorki AGS eða Norðurlöndin ganga frá sínum lánum sem setur mörg miklvæg endurreisnar-mál í biðstöðu (ástæðan fyrir öllum látunum núna í Jóhönnu). Það verður tvímælalaust mjög slæmt fyrir okkur að bíða lengur, en það væri enn verra að láta Breta og Hollendinga kúga okkur til að samþykkja samning sem við getum ekki borgað.
Birtingarmynd vandræðanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Jóhanna virðist hafa misreiknað sig illilega í gær!
30.9.2009 | 13:46
Eftir gærdaginn voru margir að furða sig á hvað Jóhönnu gengi til með þeim ummælum að "stjórnarflokkarnir þyrftu í vikunni að ná niðurstöðu um hvort meirihluti sé fyrir málinu með þessum athugasemdum". Nú vitum við niðurstöðuna!
Jóhanna gaf ekki upp hver þessi " tvö til þrjú atriði" væru sem stæðu út af borðinu varðandi athugasemdirnar. Það greinilega skiptir öllu máli hverjar þessar athugasemdir eru, en þær hafa enn ekki verið birta opinberlega. Ég skrifaði blogg um þetta mál í gær, þar sem krafist var að allar athugasemdirnar yrðu birtar áður en Alþingi tæki þær fyrir. Spurði um leið ýmissa spurninga, þar á meðal hvort verið væri að neyða stjórnar-þingmenn til að samþykkja athugasemdirnar án opinberrar umræðu fyrst.
Stuttu eftir það þá kom eftirfarandi blogg-færsla frá Sigurði Sigurðarsyni, þar sem hann birtir lista með eftirfarandi atriði sem Bretar og Hollendingar hafa lýst andstöðu yfir:
- Niðurfelling ríkisábyrgðar á eftirstöðvum sem kunna að vera til staðar eftir 5. júní 2024 skv. 1. grein laganna um ríkisábyrgðina
- Hámark ríkisábyrgðar sem á að vera 4% af vexti vergrar landsframleiðslu á árunum 2017 til 2023, skv. 3 gr. laganna um ríkisábyrgðina
- Uppgjör Landsbanka Íslands hf. eða þrotabús hans skuli fara samkvæmt íslenskum lögum, skv. 4. gr. laganna um ríkisábyrgðina
Ef þessi listi sem er óstaðfestur er réttur, þá er greinilegt að Bretar og Hollendingar eru að hafna fyrirvörunum nær algjörlega. Þetta skýrir líka þau hörðu viðbrögð hjá Ögmundi að segja frekar af sér heldur en að samþykkja þetta.
Núna skiptir öllu máli hvernig við bregðumst við. Þetta má skiptir meira máli heldur en hvort ríkisstjórning haldi velli. Þar sem greinilegt er að við getum ekki orðið við þessum athugasemdum, þá þarf að láta Bretana og Hollendingana strax vita að fyrirvararnir standi óbreyttir og láta síðan þá um að ákveða hvort þeir felli IceSave samninginn úr gildi eða ekki.
Ef Bretar og Hollendingar fella samninginn úr gildi (sem þeir greinilega vilja ekki gera) þá verða fréttirnar af því erlendis mun jákvæðari fyrir okkur, heldur en ef það erum við sem höfnum fyrst einhverjum athugasemdum sem ekki hafa verið birtar opinberlega.
Ögmundur segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jóhanna, ekki endurtaka aftur mistökin frá því sumar!
29.9.2009 | 15:16
Mér sýnist við vera að fá slæmt "case of deja-vu" hérna. Jóhanna segir að "að enn standi tvö til þrjú atriði út af borðinu í sambandi við athugasemdir Breta og Hollendinga við fyrirvarana í Icesave-samningnum." og síðan "Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir þurfi í þessari viku að ná niðurstöðu um það hvort meirihluti sé fyrir málinu með þessum athugasemdum."
- Hver nákvæmlega eru þessi tvö til þrjú atriði í athugasemdum Breta og Hollendinga?
- Af hverju megum við ekki sjá þessar athugasemdir áður en þær verða teknar fyrir á Alþingi?
- Er verið að neyða stjórnar-þingmenn til að samþykkja athugasemdirnar án opinnar umræðu fyrst?
- Hvað gerist svo hræðilegt ef niðurstaða næst ekki fyrir helgi?
- Hefur ríksstjórnin virkilega ekkert lært frá því í sumar?
Stór hluti af vandamálinu í sumar var að ríkisstjórnin vildi keyra IceSave-samninginn í gegn um þingið, án þess að það færi fram opin umræða fyrst um ákvæði samningsins. Það var ekki fyrr en samningarnir voru gerðir opinberir, að öll vandamálin með þá komu upp á yfirborðið.
"Ég mun aldrei samþykkja þetta mál nema ég sé sátt við þá niðurstöðu og treysti mér til þess að fylgja henni fram fyrir íslenska þjóð með minni ríkisstjórn."
Það er ekki nóg að Jóhanna og ríkisstjórnin samþykki athugasemdirnar, við þurfum að greina þær og skoða vandlega til sjá hvort þær séu ásættanlegar ÁÐUR en Alþingi tekur þær fyrir!
Þarf niðurstöðu fyrir helgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Loksins, loksins, er Jóhanna farin að skýra út okkar málstað erlendis!
29.9.2009 | 09:55
Mjög jákvætt að sjá loksins viðtal við Jóhönnu í erlendum fjölmiðli. Við höfum einfaldlega enga möguleika á að ná viðunandi niðurstöðu í þessu máli ef við skýrum ekki út okkar málstað opinberlega.
En betur má ef duga skal. Almenningur erlendis les því miður ekki reglulega Financial Times og Bloomberg News. Eins og komið hefur hér fram áður, til dæmis þessari blogg-færslu, þá verðum við að fara í viðtöl reglulega í mörgum erlendum fjölmiðlum, bæði blöðum, útvarpi og sjónvarpi í öllum þeim Evrópulöndum sem á einn eða annan hátt tengjast málinu. Og ekki bara Jóhanna, heldur einnig aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni auk þingmanna, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Sérstaklega væri gott að sjá viðtöl við þá þingmenn sem stóðu að baki samningu fyrirvarana til að skýra út af hverju þeir voru nauðsynlegir til að Alþingi gæti samþykkt samninginn.
Við verðum að fá almenningsálitið í þessum löndum á okkar band, sem mundi mynda þrýsting stjórnir viðkomandi landa. Það dugar einfaldlega ekki að ræða aðeins við embættismenn og samninganefndir þeirra í "trúnaði" þar sem þeir hafa yfirhöndina.
Bretar og Hollendingar hafa bara tvo raunverulega kosti í stöðunni. Annað hvort samþykkja þeir IceSave samninginn með þeim öllum fyrirvörum sem Alþingi setti, eða þeir fella samninginn sem táknar að við byrjum allan ferilinn upp á nýtt. Það er mikilvægt að þeir skilji fullkomlega að við höfum þegar teygt okkur eins langt og við mögulega gátum. Ef þeir vilja gera breytingar á samningnum, þá eru fjöldamörg atriði og mistök í samningnum sem við munum krefjast að breytt verði einnig. Þessu verður að koma á framfæri mjög skýrt opinberlega, þannig að allir skilja hver raunverulega staðan er.
Jóhanna: Þolinmæðin á þrotum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)