Heyr, heyr! Ragnar Hall ákvæðið virðist loksins hafa verið tekið út úr IceSave samningunum.
10.12.2010 | 00:32
Eins og áður hefur komið fram, þótt vaxtaprósentan skipti auðvitað miklu máli, skiptir Ragnar Hall ákvæðið (4.2(b) í upprunalega IceSave settlement-samningnum) að mörgu leiti mun meira máli fjárhagslega.
Þetta heimskulega ákvæði, hefði aldrei átt að samþykkja. Það var andstætt íslenskum gjaldþrotalögum, breytti öllum forsendum varðandi greiðslur frá þrotabúi Landsbankans, og gerði upprunalegu IceSave I og II samningana algjörlega óásættanlega.
Ragnar Hall lögfræðingur á að mínu áliti skilið Fálkaorðuna, fyrir það eitt að hafa bent á þetta atriði nógu snemma í grein sinni sumarið 2009, áður en nokkur annar gerði sér grein fyrir þessum alvarlegu mistökum og IceSave samingarnir samþykktir í kyrrþey.
Í samantekt saminganefndarinnar er ekki minnst einu orði á Ragnar Hall ákvæðið og úrlausn þess. Í stað þess eru eftirfarandi setningar um greiðslur úr þrotabúi Landsbankans nefndar í greinum 7 og 12:
"Að því búnu verði greiðslur inntar af hendi jöfnum höndum eftir því sem úthlutað er úr búi Landsbankans allt til loka júnimánaðar 2016."
"Við áætlunina er byggt á mati Skilanefndar Landsbankans á heimtum á eignum þrotabúsins, horfum á greiðslum til kröfuhafa eins og þær eru metnar af slitastjórn bankans, og reikniforsendum Seðlabanka Íslands varðandi þróun á gengi gjaldmiðla."
http://www.mbl.is/media/60/2460.pdf
Síðan er gefið upp að miðað við forsendur Landsbankans og Seðlabankans, þá verði heildarkostnaður Íslenska ríkisins um það bil 50 milljarðar króna.
Til að reikna þetta út tók ég fram gamla IceSave töflureiknirinn minn sem ég gerði fyrir ári síðan og uppfærði hann miðað við þær upplýsingar sem ég gat rýnt út úr samantektinni. Ég gaf mér eftirfarandi forsendur:
- Bæði Bresku og Hollensku lánin eru að sömu upphæð og áður, 2350B Pund og 1329B Evrur.
- Samkvæmt nýja samningnum, þá eru meðalvextir 3.2% eftir Október 2009, greiddir til Breta og Hollendinga á hverju ári til 2016.
- Eins og áður geri ég alla útreikninga fyrst í Evrum til að taka út flökt á Íslensku krónunni, og færi síðan yfir í krónur á föstu gengi 154.4.
- Ennfremur eins og áður, eru allir útreiknginar gerðir á nafnvirði. Ég vil ekki núvirða upphæðir vegna þess hversu auðvelt er þá að breyta niðurstöðunni með því einu að velja sér aðra prósentu (þetta var mikið vandamál með marga fyrri útreikninga á IceSave).
- Ég miða við gengin 178.3 GBP/ISK og 154.4 EUR/ISK (30 Sept. 2010) sem voru birt í síðustu skýrslu skilanefndar Landsbankans:
http://www.lbi.is/library/Opin-gogn/skyrslan/Financial%20Information%20for%20Q3%202010.pdf - Í sömu skýrslu LBI er gefin upp greiðsluáætlun (cash-flow) á innheimtum Landsbankans sem ég nota til viðmiðunar.
- Ég geri ráð fyrir að innheimtur hvers árs verði greiddar á miðju næsta ári þar á eftir (mesta áhættan fyrir Ísland er ennþá að þessar greiðslur annaðhvort dragist eða minnki vegna lögsókna).
- Til einföldunar, geri ég ráð fyrir að allar greiðslur frá þrotabúinu eftir 2013 ásamt NBI skuldabréfinu, verði samtals 508 milljarðar (201+290+17), greitt með fimm jöfnum greiðslum árlega 2014-2019, 101.6 milljarðar (þetta er þó nokkur einföldun, en breytir samt ekki mikið lokaniðurstöðunni).
- Eins og ég nefndi í upphafi þá er ekki gefið upp skiptingin á greiðslum frá LBI, þannig að ég reikna út fyrir bæði með Ragnar Hall ákvæðinu (51% af endurheimtum til Íslands) og án þess (100% af endurheimtum til Íslands).
Samkvæmt þessum forsendum þá verða greiðslur frá Landsbankanum til kröfuhafa eftirfarandi:
Ár | LBI Innheimt | LBI Evrur | Greiðslur LBI 51% | Greiðslur LBI 100% |
2009 | 173 | 1120 | 0 | 0 |
2010 | 173 | 1120 | 0 | 0 |
2011 | 93 | 602 | 1143 | 2241 |
2012 | 138 | 894 | 307 | 602 |
2013 | 53 | 343 | 456 | 894 |
2014 | 101.6 | 658 | 175 | 343 |
2015 | 101.6 | 658 | 336 | 658 |
2016 | 101.6 | 658 | 336 | 658 |
2017 | 101.6 | 658 | 336 | 658 |
2018 | 101.6 | 658 | 336 | 658 |
2019 | 0 | 0 | 336 | 658 |
Samtals | 1138 | 7370 | 3759 | 7370 |
Eins og sjá má þá getur það skipt gífurlega miklu máli hvort Íslenska ríkið fái 51% eða 100% af endurheimtum Landsbankans.
Hérna eru útreikningarnir á nýja IceSave láninu miðað við að Ragnar Hall ákvæðið er ennþá inni óbreytt í nýja samingnum og Íslenska ríkið fái 51% af greiðslunum frá þrotabúi Landsbankans:
Ár | Höfuðstóll byrjun árs | Greiðslur LBI 51% | Höfuðstóll lok árs | Vextir 3.2% | Vextir ÍSK Gengi 154.4 |
2009 | 4043 | 0 | 4043 | 32 | 5.0 |
2010 | 4043 | 0 | 4043 | 129 | 20.0 |
2011 | 4043 | 1143 | 2900 | 111 | 17.2 |
2012 | 2900 | 307 | 2593 | 88 | 13.6 |
2013 | 2593 | 456 | 2137 | 76 | 11.7 |
2014 | 2137 | 175 | 1962 | 66 | 10.1 |
2015 | 1962 | 336 | 1626 | 57 | 8.9 |
2016 | 1626 | 336 | 1291 | 47 | 7.2 |
2017 | 1291 | 336 | 955 | 36 | 5.5 |
2018 | 955 | 336 | 620 | 25 | 3.9 |
2019 | 620 | 336 | 284 | 14 | 2.2 |
Samtals | 284 | 3759 | 0 | 682 | 105.2 |
Samkvæmt þessum útreikningum miðað 51%, þá gengur mjög hægt að borga niður lánið. Höfuðstóllinn er ennþá 284M evrur í lok ársins 2019, heildar-vaxtagreiðslur 682M evra, sem gera 105 milljarða króna. Greinilega er þetta ekki rétt, því samkvæmt útreikningum í samantekt samninganefndarinnar, nefna þeir 50 milljarða í vexti og allt lánið greitt upp fyrir 2016.
Hérna eru síðan útreikningarnir á nýja IceSave láninu miðað við að Ragnar Hall ákvæðið hefur verið tekið út og Íslenska ríkið fái 100% af LBI greiðslunum, þar til IceSave skuldin er að fullu gerð upp:
Ár | Höfuðstóll byrjun árs | Greiðslur LBI 100% | Höfuðstóll lok árs | Vextir 3.2% | Vextir ÍSK Gengi 154.4 |
2009 | 4043 | 0 | 4043 | 32 | 5.0 |
2010 | 4043 | 0 | 4043 | 129 | 20.0 |
2011 | 4043 | 2241 | 1802 | 94 | 14.4 |
2012 | 1802 | 602 | 1200 | 48 | 7.4 |
2013 | 1200 | 894 | 306 | 24 | 3.7 |
2014 | 306 | 306 | 0 | 5 | 0.8 |
Samtals | 0 | 4043 | 0 | 332 | 51.3 |
Samkvæmt þessum útreikningum miðað 100% LBI greiðslur, þá greiðist IceSave lánið að fullu upp á 4 árum. Höfuðstóllinn er kominn niður í núll árið 2014, heildar-vaxtagreiðslur 332M evra, sem gera um það bil 51 milljarð króna. Þessi niðurstaða er því greinilega nokkuð nálægt þeim útreikningum sem samninganefndin gerði. Mismunurinn er það lítill að hann getur auðveldlega skýrst vegna smá skekkju í forsendum.
Til samanburðar má geta, að í mínum fyrri útreikningum á IceSave I og II, var ég að fá um það bil 1500-2000M evra í vexti og 500-1000M evra í höfuðstólsgreiðslum að nafnvirði ofan á greiðslurnar frá Landsbankanum. Þetta samsvaraði 300-450 milljarða króna í greiðslum frá Íslenska ríkinu miðað við Evru-gengið í dag (hærri krónu-upphæðir sem ég fékk út áður voru aðallega vegna lægra gengis gagnvart evru 180).
Það er því mín niðurstaða, að með þessum nýju samingum höfum okkur nú líklega loksins tekist að losna við Ragnar Hall ákvæðið. Það ákvæði eitt og sér, var helsta ástæðan fyrir andstöðu minni við báða fyrri IceSave samningana.
Auðvitað þurfum við að sjá raunverulegu samningana og greina þá rækilega, en ef þessi niðurstaða er rétt, þá get ég fyrir mitt leyti samþykkt þennan nýja IceSave samning.
![]() |
Kostnaður 50 milljarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 11:53 | Facebook
Athugasemdir
Það er gott að einhver er bjartsýnn.
Ég er samt sammála þér með Ragnar Hall ákvæðið.
Marinó G. Njálsson, 10.12.2010 kl. 00:53
Afskriftarkostnaður við Breska sjóði er hærri en í Hollandi, þar sem verðbólga er búin að vera um 3,4% á að meðaltali í UK síðustu 30 ár.
Þannig að vonandi aukast gjaldeyristekjur Íslendinga til ráðstöfunar um sömu upphæð.
Neocolonialism:policy of seeking political and economic hegemony over an independent state or territory without taking that territory as a colony
Hér var gerð úttekt á veðsöfnum Íslanska fjármálgeirans 2004 vegna útrásar inn á EU reiðufjármarkaðinn. Skýrsla AGS 2005 tekur til nokkrar staðreyndir. Svo sem langtíma vaxtakröfuna á öruggasta veðlánaflokkum hér innlands: sem eru yfir lámarksvextir utan Íslands.
Lánálínur í EU fóru samstundis að lokast smátt og smátt enda vaxtakröfur langt fram úr langtíma greiðslugetu lántakenda og veðinn metin í heildina litið langt umfram raunvirði. Hér er gert ráð fyrir að verðbólga vaxi veldisvísislega 25 til 45 ára lánum frá um 1998. Þessi ráðgerð kemur vel fram á fasteignaverði hér innlands fram til 2007.
Verðbólga eða innstæðulaus hagvöxtur í augum útlendinga er allstaðar ef ráðgerð vaxa stig af stig næstu 30 ár. Hægt er að sjá ferill CPI síðust 30 ár fyrir vantrúaða.
Hinsvegar þegar hverfi eru í byggingu erlendis er sala fyrst hæg og tekur svo sveiflu upp á við: henta vel 5 ára kúlulánum byggingaverktaka. Þá er allt selt og toppi náð, þá má búast við smá falli og stöðugu verðlagi næstu áratugina. Almenningur greiðir hinsvegar hluta af sinni fasteign með 30 ára lánum sem miða við fasta 3,2% verðbólgu í USA eða vaxi línulega.
Ég tel stjórnvöld helst viðskipta aðila Íslendinga hafa leyft þessi útibú til að tryggja Íslensku bönkum fé til að greiða sínum lánadrottnafjárfestum með þau kæmust upp með það. 2006 bannfærir Seðlabanki EU þann Íslenska opinberlega. 2007 bendir USA að fjármálgeirinn sé alltaf of stór miðað við veðin. UK var ekki stætt á annað en setja á hryðjuverka lög. Sannanir fyrir því að hér væru aðilar til búnir að falsa bókhald til að svipta almenning eignum sínum og senda á vergang voru þegar til staðar hjá þeim. Þótt þær séu fyrst núna að birtast íslendingum.
Gera ráð fyrir veldíslegum vexti verðbólgu gerðu Nasistar gagnvart enska pundinu. Ef verðbólga er undir 1% næstu þá skiptir þetta nánast engu máli. En ef hagvaxta krafan er er 3,0% min eins og í UK. Þá hrynur þetta 1998 + 5 = 2003.
Raunhagvöxtur 1% á 100 árum er gott hjá ríkustu þjóðum heims. Hagvöxtur umfram verðbólgu.
Kínverji með 200 grjón í laun fær 20 grjóna hækkun þá er 10% hækkun hagvaxtar í Kína.
Þjóðverji með 200 bjóra í laun í laun fær 2 bjóra hækkun þá er 2 % hækkun hagvaxtar í þýskalandi.
Hæstiréttur EU er ekki skipaður UK og Hollandi eingöngu. Bókhaldsreglur í Þýsklandi og Frakklandi er mikið strangari en í UK.
Ólögleg nýfrjálshyggja er hvorki leifð í USA eða EU. Þótt hún sé búin að vera grunnur hér síðan um 1982.
Júlíus Björnsson, 10.12.2010 kl. 04:43
Takk fyrir þessa framsetningu Bjarni.
Miðað við þetta er þá bara að vona að tilgáta/útgangspunktur samninganefndarinnar haldi, þ.e. að ríkið fái sem næst 100% úr þrotabúi Landsbankans, svo að börnin og barnabörnin þurfi nú ekki að bera byrðina.
Anna Karlsdóttir, 10.12.2010 kl. 08:39
Alltaf jafn vitrænn - Bjarni. Geta hreykt mér af því að einnig hafa séð þetta það sama og þú - sbr. mína nýjustu færslu.
Vaxtagjöld verða samt erfið sýnist mér - en þ.e. vegna annarrs skulda, sem þetta þá bætist ofan á.
Á hinn bóginn - sýnist mér trúverðugt að ólíklegt sé að unnt verði að fá samning sem kostar minna en þetta!
--------------------
Seðlabanki Íslands: Peningamál, 42. rit. 3. nóvember 2010
Tekjur vs. gjöld ísl. ríkisins í ár!
......................................................2010
Tekjur.............................................461,9
Gjöld..............................................560,7
Fjármagnskostnaður..........................75,1* (kostnaður fyrir 2011)
Vaxtagjöld vs. tekjur.........................16,26% (Skv. OECD voru þau hærri en þetta, þ.e. tæp 20%)
Gjöld+Icesave.(hámark).....................(23,1+75,1)/461,9 =21,26%
Gjöld+Icesave...................................(17+75,1)/461,9 = 19,94%
---------------------------------
Vaxtagjöld í kringum 20% - er mjög mikið.
Mjög brýnt klárlega að auka tekjur ríkisins.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.12.2010 kl. 08:57
Sæll Bjarni og takk fyrir þessar athyglisverðu upplýsingar
Ég hef hvergi annarstaðar séð samkomulagið skýrt með þessum hætti. Þetta skýrir þó þann mikla mun sem er á kostnaði við samningana.
Gætir þú skýrt út á einfaldann hátt hvernig þetta Ragnars Hall ákvæði er, ég hef aldrei náð að skilja það, þó ég hafi reynt að lesa greinar um það eftir lögfræðinga.
Kröfuhafar í þrotabúið eru eingöngu innistæðieigendur og standa þar allir jafnir þeir sem áttu yfir lámarksupphæðinni og þeir sem voru undir henni. Innistæðutryggingasjóðurinn yfirtók innistæður þeirra sem voru undir lámarkinu (og þann hluta hinna sem var undir lámarkinu) en B&H þær upphæðir sem voru hærri en lámarkið. Allir fá sennilega á endanum 90 til 100% af nafnverði sinnar kröfu. Eins og þú setur dæmið upp fer allt sem inn kemut til tryggingarsjóðsins þar til allar hans skuldbindingar eru að fullu greiddarv(100%), þá fyrst byrja hinir að fá eitthvað. Hvað með ef á endasprettinum fengist aðeins 60% uppí kröfurnar, á þá tryggingasjóðurinn að borga til baka stórar fjárhæðir. Ég næ þessu ekki alveg en gott ef þú gætir skýrt þetta á mannamáli, og þau rök sem þarna eru að baki.
Kveðja
Þorbergur
Þorbergur Leifsson (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 12:40
Þorbergur - spurningin er hvort við erum að tala um eina kröfu vs. að tala um tvær.
En, málið er að TIF hefur "right of subrogation" þ.e. hann tekur yfir kröfu þess sem hefur orðið fyrir tjóni, upp að þeirri upphæð sem hann á að greiða út sbr. 20þ. Evrur, og síðan rukkar þrotabúið fyrir því.
Nú, gamli Icesave samn. var þannig, að kröfu var alltaf skipt í tvennt. Þ.e. í stað þess að TIF rukkaði þrotabúið þangað til að hann hefði greitt þær kröfur sem til hans eru gerðar, þá var fyrirkomulagið þannig að Bretar eða Hollendingar, fengu alltaf 50% á móti út úr þrotabúinu.
Þetta orsakaði það, að uppgreiðslutími og því vaxtakostnaður varð alltaf til muna lengri sbr. útskýringu Bjarna.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 11.12.2010 kl. 17:46
Sæll Bjarni.
Ertu viss um að þú sért að lesa það rétt út úr samningunum að þetta sé ein krafa en ekki tvær?
Settlement agreement skjalið sem fylgir samningnum núna segir ekkert um að 4.2b ákvæðið fari út. aðeins oer minnst á breytingar á greinum 1.3 og 7.4. Afgangurinn af Upprunalega settlement agreementinum (með breytingum 19. okt) gildir sem hluti þessa nýja Icesave samnings.
Jóhannes Þór Skúlason (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 18:11
Samantekt samninganefndar á niðurstöðum viðræðna við bresk og hollensk stjórnvöld vegna Icesave:
Uppbygging samninganna.
Niðurstöður viðræðnanna gera í stórum dráttum ráð fyrir að í stað hefðbundinna lánssamninga verði gerðir endurgreiðslu- og skaðleysissamningar (e. Reimbursement and Indemnity Agreements) með aðild hlutaðeigandi ríkja og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF). Endurgreiðslusamningarnir eru um margt með öðru sniði en fyrri lánssamningar vegna uppgjörs lágmarkstryggingar við innstæðueigendur Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þeir gera ráð fyrir að Tryggingarsjóður innstæðureigenda og fjárfesta endurgreiði breskum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa lagt út af því tilefni en fái í staðinn framseldan samsvarandi hluta krafna þeirra í bú bankans og annist um að innheimta þær. Gert er ráð fyrir að tryggingasjóðurinn nýti áður en til þess kemur þá fjármuni sem nú þegar eru til í sjóðnum til endurgreiðslu. Að því búnu verði greiðslur inntar af hendi jöfnum höndum eftir því sem úthlutað er úr búi Landsbankans allt til loka júnimánaðar 2016.
----------------------
Eins og ég skil þetta, er litaða svæðið einmitt að lýsa klassísku dæmi um "subrogation".
H&B fá ekki greiðslur úr þrotabúinu, heldur frá TIF sem í staðinn rukkar þrotabúið. Þannig, að greiðslur úr þrotabúi gangi óskiptar til TIF, þar til TIF hafi fengið sitt uppgreitt og á móti greitt út lögbundið lágmark.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 11.12.2010 kl. 20:08
Sælir Þorbergur,
Líklega er ástæðan fyrir því að þú sérð þetta ekki útskýrt svona annarstaðar er að uppáhaldsfögin mín í háskólanum voru aðgerðargreining, viðskiptafræði, tölvunarfræði og stærðfræði. Mér finnst einfaldlega gaman (og gagnlegt) að reikna hluti nákvæmlega út.
Í grundvallaratriðum, þá varðar Ragnar Hall ákvæðið hvernig greiðslum úr þrotabúi Landsbankans er skipt á milli kröfuhafa. Er hver upprunaleg innistæða ein stök krafa í sem síðan er borguð út til þeirra sem tóku hana yfir (TIF/FSCS) samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum, eða á að skipta henni í tvær kröfur, undir og yfir 20K evrur, sem síðan eru jafnréttháar.
Ákvæði 4.2(b) í settlement samningnum, sagði að jafnvel þótt þrotabúið mundi greiða samkvæmt íslenskum gjaldþrotalögum út sem eina kröfu, þá ætti TIF að borga mismuninn (balancing payment) til baka til FSCS þannig að þeir fengju jafnan hluta (pro-rata level).
Lagaleg rök á bak við hvers vegna þetta var rangt, hefur verið margfjallað um, til dæmis í Mishcon de Reya skýrslunni frægu (bls. 15-24 og 78-79):
http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=76&dbnr=835&nefnd=fl
Á blaðsíðu 16 er til dæmis eftirfarandi setning:
"The treatment of each deposit as a single undivided claim is such a basic principle in law that we can only assume it would also be applicable under Icelandic insolvency law, as the nature of the claim itself does not change towards Landsbanki, no matter what the contractual position between TIF and FSCS. Under English law, it would not be possible to create, out of one single claim against an insolvent estate, two claims (still less two claims with different levels of priority, although the two parties who thereafter "shared" the claim might agree between themselves to divide recoveries other than equally)."
Hérna eru líka nokkrar færslur sem ég skrifaði í janúar þegar mestu lætin voru út af IceSave, sem fara vandlega út í Ragnar Hall ákvæðið:
Raunveruleg lausn hjá Icesave deilunni!
The Icesave Paradox: How can Iceland be against the current Icesave agreement, and still be absolutely committed to fulfill all its obligations
Vextirnir eru og hafa alltaf verið aðalvandamálið við IceSave!
Bjarni Kristjánsson, 11.12.2010 kl. 21:40
Sælir Jóhannes,
Ég eins og flestir aðrir hef ekki ennþá séð nýju samningana (IceSave III). Þangað til samningarnir eru birtir opinberlega, er því ómögulegt um að segja hvort ég sé því að lesa rétt út úr þeim.
Rökin sem ég nota í færslunni eru, að með því að reikna 3.2% vexti á kröfur Breta og Hollendinga og gera ráð fyrir endurgreiðslur miðað við að Ragnar Hall ákæðið sé ennþá inni, sé það stærðfræðilega ómögulegt að fá út útkomuna sem samninganefndin nefnir í samantekt sinni. Aðeins með því að nota allar endurgreiðslur Landsbankans beint til greiðslu IceSave skuldarinnar, er hægt að ná heildarvöxtunum niður í 50 milljarða og greiða allan höfuðstólinn niður fyrir árið 2016.
Það er enn til í dæminu að samninganefndin sé að gefa sér einhverjar nýjar forsendur sem gefa mun hraðari endurgreiðslur frá þrotabúinu heldur en þær sem skilanefndin hefur birt. En þetta er mjög ólíklegt, þar sem það liggur ljóst fyrir að stór hluti eigna gamla Landsbankans muni ekki koma inn fyrr en eftir 2016.
Þú nefnir eitthvað "Settlement agreement" skjal sem fylgir samningunum núna. Ertu að tala um samantektina sem birt var af samninganefndinni, eða hefur þú séð eitthvað annað nýtt skjal? Ef það er nýtt skjal, getur þú sent eða gefið tilvísun á það, svo við getum lesið það líka?
Bjarni Kristjánsson, 11.12.2010 kl. 22:06
Vil bara taka það fram, að ef það kemur í ljós að útreikningar samninganefndarinnar er annaðhvort ekki byggðir á raunverulegum forsendum, eða það er enn eitthvað lagalegt spursmál um hvort Ragnar Hall ákvæðið sé ennþá í gildi, þá mun ég auðvitað eins og svo margir aðrir, styðja að þessi samningur sé felldur eins og sá fyrri.
Bjarni Kristjánsson, 11.12.2010 kl. 22:30
Sæll og takk fyrir þetta.
Þetta er sem sagt bara tilgáta hjá þér. Það er þá merkilegt að samninganefndin nefnir í grein 12 aðeins vextina og gengi, en ekki langmikilvægastu breytinguna.
Margt gerir að verkum að kostnaður fer lækkandi, þar skipta mestu lægri vextir
(vextir hafa haldist lágir á alþjóðamörkuðum) og styrking á gengi íslensku krónunnar
frá því að kröfulýsingarfrestur í þrotabú Landsbankans rann út í apríl 2009, en
kröfufjárhæðir eru miðaðar við gengi krónunnar á þeim tíma. Kostnaður svarar því tivel innan við þriðjung af fyrra kostnaðarmati
Þetta er því allt mjög dulafullt.Sennilega eitthvað á bak við sem við vitum ekki enn.
Ég sem hef líka mjög gaman af að reikna hluti nákvæmlega og eðlilega út, finnst hinsvegar eðlilegast að greiðslurnar skiptist nokkuð jafnt. En hvað er eðlilegt og löglegt er ekki alltaf það sama. Ég þarf að lesa rökstuðninginn sem þú bentir mér á betur.
Kveðja og takk fyrir upplýsingarnar.
Þorbergur Leifsson (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 23:09
Sælir Þorbergur,
Já, eins og er, er þetta aðeins tilgáta. Þess vegna notaði ég orð eins og "virðist", "líklega", og "ef rétt" í upprunalegu færslunni. Eitt er ég samt viss um, það er ekki hægt að skýra út þessa minnkun á kostnaði við IceSave, eingungis með lækkun á vöxtum og styrkingu á gengi.
Það er greinilega eitthvað meira á bak við þetta. Við verðum einfaldlega að bíða og sjá hvað stendur í sjálfum samningnum, til að fá þetta á hreint.
Bjarni Kristjánsson, 11.12.2010 kl. 23:29
Raunhagvöxtur er neikvæður í EU fram til 2013 var -4,0% 2009. Ísland fær engar fjárfestingar frá EU sem tryggja þeim meiri raunhagvöxt en í EU. Þetta eru okurvextir þar sem raunhagvöxtur Íslands frá 1994 er minni en í EU. Verður aldrei hann meiri en hjá þroskuðum Ríkjum. Þessi hagvöxtur miðast við verðmæta minkum þjóðarframleiðslu í Dollurum [ekki landsframleiðslu]. 80% minnst er stjórnað hér frá Brussel í stórum Alþjóðlegum viðskiptum til langframa.
Þessi Icesave krafa stenst ekki fyrir EU dómstólum. UK deilir ekki ábyrgð á sínum séreignamörkuðum með öðrum ríkjum.
Júlíus Björnsson, 12.12.2010 kl. 03:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.