Af hverju er Ragnar Hall ákvæðið ennþá svona mikilvægt varðandi IceSave?

Helstu fréttirnar af nýja IceSave 3 samingnum, fjalla því miður aðeins um hvaða flokkur eða stjórnmálamaður hafi gert mistök, eða um önnur atriði sem skipta tiltölulega litlu máli fyrir okkur fjárhagslega.  Með þessum nýju samningum, hefur okkur tekist að lækka vaxtaprósentuna niður í 3% sem er hið besta mál, en það virðist ennþá spursmál hvort Ragnar Hall ákvæðið sé að fullu leyst.  Hérna eru frekari útreikningar sem sýna afhverju það er ennþá svona mikilvægt fyrir hagsmuni Íslands.

Samkvæmt síðustu skýrslu skilanefndar Landsbankans:

http://www.lbi.is/library/Opin-gogn/skyrslan/Q3_Financial_information_open_side.pdf

þá hafði 30. september 2010 þegar safnast inn 292.7 milljarðar íslenskra króna, þar af 134.3 milljarðar í London. Síðan gera þeir ráð fyrir að 53 milljarðar í viðbót safnist inn fyrir lok þessa árs, sem gerir samtals 346 milljarða. Miðað við evru-gengið 154.4 þennan sama dag, þá er heildarskuldin á IceSave u.þ.b. 624 milljarðar (4043 x 154.4).

Samtals hafa því safnast inn við lok ársins rétt rúmlega 55% af eignum Landsbankans miðað IceSave skuldina (346 / 624), en samkvæmt Ragnar Hall ákvæðinu rennur aðeins 51% af þeirri upphæð til greiðslu okkar á IceSave. Því hafa aðeins 28% af IceSave skuldinni safnast inn fyrir okkur (51% x 55%).

Hvaðan koma þá þessi upprunalegu 93% sem oft er vísað í?

Samkvæmt "estimated cash-flow" sem LBI gefa upp á blaðsíðu 10, þá munu aðrir 284 milljarðar safnast inn á árunum 2011 til 2013, og 201 milljarður eftir 2014. Að lokum kemur NBI skuldabréf nýja Landsbankans upp á 284 milljarða til greiðslu á árunum 2014 til 2018. Þetta gerir samtals 1138 milljarða sem skilanefndin gerir ráð fyrir að safnist inn í heildina.

Ef við tökum síðan 51% af 1138, þá fáum við út 580 milljarða sem renna til TIF, samkvæmt Ragnar Hall ákvæðinu. Að lokum tökum við hlutfallið 580 / 624 og þá fæst loksins út 93%-in sem vísað er í.

Vandamálið er að þessar 93% endurheimtur koma ekki inn að fullu fyrr en í kring um 2018-2019. Á meðan eru fullir vextir reiknaðir af eftirstöðvum IceSave skuldarinnar, sem ég reiknaði í upprunalegu færslunni 10. desember yrði vel yfir 100 milljarðar plús höfuðstólsgreiðslur eftir 2016.

Það er eitt vandamál í viðbót sem lítið hefur verið fjallað um hingað til. Allar þessar áætluðu endurheimtur eru háðar því að nýji Landsbankinn muni yfirleitt getað greitt skuldabréf sitt upp á 284 milljarða í erlendri mynt árin 2014-2018, sem ég reyndar stórefast um. Ef nýji Landsbankinn fellur og getur ekki greitt skuldabréfið, þá mun Íslenska ríkið bera ábyrgð óbeint á þessum 284 milljörðum, ef IceSave skuldin hefur ekki ennþá verið gerð upp við Breta og Hollendinga.

Ef hins vegar Ragnar Hall ákvæðið fellur út, þá getum við auðveldlega greitt upp IceSave skuldina að fullu fyrir 2014, og óbeina ábyrgðin af nýja Landsbankanum getur því ekki lengur fallið á okkur.

Nú hafa birst fréttir um að það hafi borist tilboð upp á 1.5 milljarð punda í verslunarkeðjuna Iceland sem gamli Landsbankinn á stóran hluta í.  Skilanefnd Landsbankans er örugglega með virðið á verslunarkeðjunni Iceland þegar inni í sínum útreikningum. Ef söluverðið verður að lokum hærra heldur en þeir gera ráð fyrir þá mun auðvitað meira renna til þrotabús Landsbankans. En ef Ragnar Hall ákvæðið er ennþá inni, þá munu aðeins 51% af þeirri aukningu renna til Íslands.

Icesave deilan verður því miður ekki leyst með óskhyggju einni saman, heldur aðeins með að samningar séu gerðir sem eru byggðir á raunverulegum forsendum og réttum útreikningum.

 


mbl.is Icesave-samningarnir á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gott að þú minntist á skuldabréf NBI til skilanefndarinnar. Ég er búinn að vera að gala um þetta út um alla koppagrundu og hefur stundum fundist að enginn taki mark á mér þegar ég segi að ríkið á ekki nýja Landsbankann frekar en Bjöggarnir áttu þann gamla. Hann er bara fenginn að láni! Sama bannsetta svikamyllan endurtekin áratug síðar, nema í þetta sinn er skjalfest frá fyrsta degi að það er með vilja og á ábyrgð ríkisins.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.12.2010 kl. 02:55

2 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Sælir Guðmundur,

Já, það er margt mjög varhugavert við NBI skuldabréfið og alveg ótrúlegt hve lítið hefur verið fjallað um það.  Til dæmis, afhverju skuldabréfið var gefið út í erlendri mynt, þegar eignirnar sem nýji Landsbankinn tók yfir voru nær allar í íslenskum krónum. 

Það er nær 100% öruggt að nýji Landsbankinn (NBI) einn og sér mun aldrei hafa neina möguleika á að greiða til gamla Landsbankans (LBI) nærri 2 milljarða evra, á aðeins fimm árum milli 2014-2018.  Þetta skuldabréf nálgast það að vera hálft "IceSave".

Og síðan það sem ég minntist á í færslunni, ef NBI getur ekki borgað skuldabréfið, þá þarf ríkisstjórnin að ákveða hvort hún eigi að reyna að "bjarga" bankanum.  Ef hún annaðhvort getur eða vill það ekki, þá fellur stór hluti skuldarinnar samt á ríkissjóð, óbeint í gegnum IceSave samninginn, þar sem greiðslurnar frá NBI skuldabréfinu eru hluti af endurheimtunum sem gert er ráð fyrir.  

Því er það aðeins ef ALLAR endurheimtur Landsbankans renna FYRST til greiðslu á IceSave skuldinni, að hægt er að greiða hana að fullu ÁÐUR en greiðslur á skuldabréfinu byrja að falla á NBI.  Það er þó aðeins möguleiki ef Ragnar Hall ákvæðið verður EKKI bindandi í IceSave samningnum.

Bjarni Kristjánsson, 15.12.2010 kl. 05:07

3 identicon

Sæll

Þetta er eini staðurinn þar sem maður fær einhverjar raunverulegar upplýsingar um ICESAVe ekki bara froðusnakk. 

Ég get ekki annað en verið sammála þér um að ef sú uppðhæð sem talað er um er rétt þurfa íslandingar að  fá allt sem inn kemur. Ég trúi hinsvegar ekki að B&H hafi samið þannig. Skiptingin 51/49% hlýtur að miða við áætlað lokauppgjör (um 90%) og er því bara áætlun þar til nær dregur. Að borga 100% af fyrstu greiðslunum til þess sem á hugsanlega aðeins að fá 52% er  mjög óeðlilegt, akkurat vegna þess sem þú nefnir að ef td. lánið til NBI skilar sér ekki og lokainnheimturnar verða td. bara 70% eru íslendingar búnir að fá meira en þeim bar og B&H sitja uppi mað allt viðbótartapið. Þ.e.a.s tap af eignum sem íslendingar tóku úr þrotabúinu til að leika sér með og búa til stærri banka.

Eðlilegasta viðmiðið í endurgreiðslum (fyrir stærðfræðinga en kanski ekki lögfræðinga) væri að líta á hverja greiðslu sem lokagreiðslu og skipta henni þannig. Þá fengju Íslendingar mun hærra hlutfall af fyrstu greiðslunum  en hlutfall B&H hækkaði eftir því sem liði á þar sem þeir tryggja hærri upphæðirnar þar sem endurgreyðsluhlutfallið lækkar mun hraðar ef heildarendurgreiðslan lækkar heldur en hjá íslendingunum sem tryggja fyrstu 20 000 evrurnar og fá því hlutfallslega meira en 51% ef lokaendurgreiðsluhlutfallið verður lægra. 

Ég veit ekki hver þessi hlutföll eru en þau duga tæplega til að skýra hina lágu upphæð sem samkomulagið er sagt kosta.  Það væri gama að heyra álit þitt á þessu og hvort þú hafir upplýsingar um þessi hlutföll, og þá hver munurinn er á þessari endurgreiðslu og hinum (51% og 100%).

Kveðja

Þorbergur 

Þorbergur steinn Leifsson (IP-tala skráð) 15.12.2010 kl. 16:31

4 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Sælir Þorbergur,

Upprunalega skiptingin 51% / 49% á endurgreiðslum Landsbankans er aðeins tilkomin vegna Ragnar Hall ákvæðisins.  Ef farið væri alfarið eftir íslenskum gjaldþrotalögum, þá mundi hver innistæða vera metin sem stök krafa í þrotabúið.  TIF mundi þá sjálfkrafa fá endurgreitt fyrst fyrir innistæður fyrir neðan 20887 evrur sem þeir ábyrgjast, áður en Bretar og Hollendingar fengju endurgreitt fyrir innistæður yfir 20887 evrur. 

Það getur verið hjálplegt skoða sérstaklega hvernig málið hefði verið afgreitt, ef Bretar og Hollendingar hefðu EKKI greitt neitt til sinna innistæðueigenda yfir 20887 evrur.  Allir sem voru með hærri innistæðu, hefðu þá einfaldlega tapað þeirri upphæð sem var yfir.  

Í þessu tilviki hefði IceSave heildarskuld Íslendinga áfram verið óbreytt 4 milljarðar evra, en Bretar og Hollendingar hefðu ekki gert neinar frekari kröfur í þrotabúið.  Þar sem það eru fáar aðrar forgangskröfur í búið, þá mundi TIF auðveldlega fá greitt þessa 4 milljarða tiltölulega fljótt á tímabilinu 2011-2014 samkvæmt áætlun skilanefndar Landsbankans og við Íslendingar verið síðan lausir allra mála.

En í stað þessa, þá ákváðu Bretar og Hollendingar, algjörlega upp á sitt einsdæmi, að borga út nær allar innistæður Landsbankans, óháð því hve háar þær væru (undantekningar á þessu voru félög og stofnanir í Bretlandi, og innistæðueigendur með yfir 100 þúsund evrur í Hollandi).  Allir aðrir innistæðueigendur fengu greitt að fullu, án þess að það væri nein lagaleg skylda til þess. 

Þessi ákvörðun var tekin án samráðs eða samþykkis Íslands, og ætti því ekki að hafa nein lagaleg áhrif á greiðsluskyldu Íslendinga.  En þar sem Bretar og Hollendingar höfðu mun betri samningamenn, þá tókst þeim að sannfæra upprunalegu samninganefndina fyrir Ísland, að það væri sanngjarnt að þeir fengju beint til sín 49% af öllum endurgreiðslum Landsbankans.  Rökstuðningurinn fyrir prósentunni, var að þeir hefðu greitt út 49% af heildarupphæðinni til innistæðueigenda með yfir 20887 evrur á reikningum sínum. 

Þetta eru því miður lang-stærstu samningamistök sem upprunalega samnganefndin gerði og það hefur verið mikil vandamál síðan að fá þessu breytt til baka.  Það var til dæmis mikið reynt í IceSave II samningunum.

Það er mín skoðun að þetta Ragnar Hall ákvæði hefði ALDREI átt að samþykkja, og allar endurgreiðslur frá Landsbankanum eigi í öllum tilfellum að fara aðeins eftir Íslenskum gjaldþrotalögum.

Það vakna því ýmsar spurningar, sem við verðum að fá svör við ÁÐUR en við tökum afstöðu til þessara nýju IceSave III samninga:

  1. Þar sem samninganefndir fyrir IceSave III hefur greinilega nú gert útreikninga (sem eru því miður ennþá óbirtir) þar sem allar greiðslur virðast renna fyrst til TIF, getum við gengið út frá því að þeir eru réttir?

  2. Hefur eitthvað breyst í samningnum, sem gerir það að verkum að Ragnar Hall ákvæðið er ekki lengur í gildi?

  3. Eða var samninganefndin einfaldlega að gera mistök í sínum útreikningum, og raunveruleg greiðsluskylda Íslendinga gæti verið margfalt hærri, eins og ég sýndi fram á í upprunalegu færslunni í síðustu viku?

Bjarni Kristjánsson, 15.12.2010 kl. 22:55

5 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Sælir Þorbergur,

Dæmið sem ég nefndi með endurgreiðslurnar er reyndar ekki alveg 100% rétt miðað við hvernig gjaldþrotalögin virka.  Þar sem hver innistæða er sjálfstæð stök krafa gagnvart gjaldþrotaskiptunum, eiga allir forgangs-kröfuhafar að fá jafnan hlut af endurgreiðslunum.  

Ef við gerum ráð fyrir að endurgreiðslu-hlutfallið 93% er rétt metið hér að ofan, þá munu allir forgangskröfuhafar (innistæðueigendur) eiga að fá þá prósentu af sínum kröfum frá þrotabúi Landsbankans. 

Kröfuhafar sem eru með hærri innistæðu en 20887 evrur, mundu ekki fá neitt greitt frá TIF og þessvegna tapa þeim 7% sem vantar upp á. 

Kröfuhafar sem eru með lægri innistæður en 20887, mundu hinsvegar eiga rétt á fá þessi 7% í viðbótar frá TIF, þannig að þeir fái tjónið að fullu bætt miðað við trygginarupphæðina.

Báðir hópar ætti síðan líklega rétt á að fá greidda vexti vegna langra tafa á greiðslu tryggingarupphæðarinnar (samkvæmt tilskipunum EB þá mátti aðeins fresta greiðslu í mesta lagi 9 mánuði), rétt eins og IceSave samningarnir gera nú ráð fyrir. 

Þannig að TIF mundi alltaf þurfa að greiða þessi 7% hjá innistæðueigendum sem eru með lægri innistæðu en 20887 plús vexti.  En í heildina mundi þetta alltaf vera mun lægri greiðslur, í samanburði við hvað Bretar og Hollendingar eru nú að krefjast í gegnum Ragnar Hall ákvæðið.

Það er vert að geta að ég nefni hér alltaf TIF, í stað ríkissjóð Íslands, þar sem upprunalega löggjöfin miðaði alltaf við að tryggingar-greiðslurnar kæmu frá TIF.  Það er aðeins með fullri samþykkt á IceSave samningnum að tryggingarskyldan færist yfir á Íslenska ríkið.

Bjarni Kristjánsson, 16.12.2010 kl. 00:29

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bjarni, ég er að mestu leyti sammála þessari greiningu hjá þér og sýnist þú vera með góðan skilning á aðalatriðum málsins.

Varðandi kröfuforganginn, þá held ég að þetta sé örlítið öðruvísi en þú lýsir, og í rauninn einfaldara:

TIF eignast kröfur allra tryggðra innstæðueigenda á þrotabúið, og gerir eina stóra kröfu fyrir þeirra hönd, sem samkvæmt lögum nr. 125/2008 (neyðarlögunum) er forgangskrafa. Upphæð kröfunnar er samanlögð upphæð allra innstæðna alveg upp í topp (100%).

Við gjaldþrotaskiptin kemur í ljós hversu mikið TIF fær upp í kröfu sína fyrir hönd innstæðueigenda. Ef það er 100% þá fá allir innstæðueigendur fullar bætur. Ef það er minna þá fá allir fyrst úthlutað 20.887 EUR per reikningseiganda, og þar með eru skilyrði lágmarkstryggingar uppfyllt. Það sem eftir stendur skiptist á milli innstæðueigenda í hlutfalli við fjárhæð innstæðna þeirra.

Það sem gerðist hinsvegar hjá TIF var að það var ekki til nóg í sjóðnum til að dekka einu sinni lágmarkstrygginguna, og Bretar voru búnir að frysta þrotabú Landsbankans sem gerði það ómögulegt að leysa upp þrotabúið í flýti. Á þeim tíma voru heldur engir kaupendur fyrir hendi og sala á hrakvirði hefði þýtt að tap innstæðueigenda yrði gert óafturkræft. Hérna byrjaði málið að vera flókið þegar í ljós kom að reglugerðir um innstæðutryggingar gerðu einfaldlega ekki ráð fyrir þessum möguleika eða hvernig ætti að leysa úr slíkri stöðu, og þá hófust deilur um eitthvað sem í rauninni gilda engar reglur um.

Með því að halda áfram rekstri á eignum þrotabúsins og hámarka enursöluverðmæti þeirra hefur skilanefndinni hinsvegar tekist að ná talsverðu af tapi innstæðueigenda til baka. Vegna mismunandi loforða um innstæðutryggingar milli landa hafði þetta í för með sér nokkurn aukakostnað fyrir innstæðutryggingakerfi Bretlands og Hollands, og spurningin er einfaldlega hvernig sé sanngjarnt að endurgjalda þeim fyrir það tjón.

Persónulega finnst mér sanngjarnt að fyrst endurheimtur verða svo góðar sem boðað hefur verið, að TIF fái þá forgang þ.e. það sem þarf til að dekka sína ábyrgð sem 20.887 EUR per reikningseiganda, vegna þess að það var eina skyldan. Krafa vegna viðbótartryggingar sem Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða og kemur skyldum Íslands ekkert við, ætti að koma þar næstá eftir í kröfuröðinni. Og svo loks það sem eftir stendur af kröfum innstæðueigenda umfram loforð um tryggingu. Miðað við nýjustu forsendur myndi það tæma þrotabúið og þar með er málinu lokið. Þeir sem áttu stærstu innstæðurnar umfram þetta yrðu hugsanlega fyrir einhverju tapi, og ættu einfaldlega að bera það tjón enda var það ótryggt. Skilanefndin ætti svo fyrir þeirra hönd að höfða skaðabótamál gegn PriceWaterHouseCoopers sem skrifaði undir falsaða ársreikninga korte áður en innlánasöfnun á IceSave reikningana hófst. Þannig yrði að lokum allt gert upp þannig að endurheimtur í forgangskröfur yrðu 100% og engin þörf á ríkisábyrgð á neinni lántöku.

En einhverra hluta vegna vilja Bretar og Hollendingar ekki sætta sig við það. Ég er farinn að hallast að því að þeim sé alveg sama um peningana, þeir vilja bara umfram allt þvinga okkur til að samþykkja ríkisábyrgð. Og það er til þess að gera okkur samsek um sömu brot og þeir ásamt öðrum Evrópuríkjum frömdu á samkeppnisreglum EES-samningsins með því að lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum í sínum heimaríkjum.

Íslendingar virðast ekki gera sér grein fyrir því að:

a) Í þessu máli höfum við staðið með pálmann í höndunum frá upphafi.

b) Við gætum splundrað Evrópusambandinu ef við vildum það. Einfaldlega með því að segja nei við ríkisábyrgð.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.12.2010 kl. 06:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband