Hver eru þessi efnahagslegu viðmið IceSave-samningsins sem nú er verið að breyta (eyðileggja)?
18.10.2009 | 23:58
Nú hefur ríkisstjórnin kynnt breytingar frá Bretum og Hollendingum á fyrirvörunum sem Alþingi Íslendinga samþykkti í ágúst. Áður en þetta er samþykkt, verðum við fyrst að ganga úr skugga um að þessar nýju tillögur valdi ekki mögulegum skaða á Íslensku efnahagslífi, sem upprunalegu fyrirvararnir áttu að koma í veg fyrir.
Efnahagslegu viðmiðin í fyrirvörunum sem Alþingi samþykkti með lögum 96/2009 í ágúst voru orðuð á eftirfarandi hátt í 3. grein:
http://www.althingi.is/altext/137/s/0358.html
"Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er miðuð við hámark á greiðslum úr ríkissjóði. Þetta hámark miðast á árabilinu 20172023 við 4% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og 2% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Hlutföll þessi verða helmingi lægri árin 2016 og 2024. Greiðslur skulu endurskoðaðar um leið og endanlegar tölur um verga landsframleiðslu liggja fyrir.
Vöxtur á vergri landsframleiðslu Íslands skv. 3. mgr. skal mældur frá 2008 til greiðsluárs á árabilinu 20162024 annars vegar í pundum vegna lánasamningsins við breska ríkið og hins vegar í evrum vegna lánasamningsins við hollenska ríkið. Útreikningur á greiðslum skv. 3. mgr. skal byggjast á meðalgengi miðgengis Seðlabanka Íslands á pundi og evru gagnvart krónu á ársgrundvelli og mati á vergri landsframleiðslu samkvæmt skilgreiningu Eurostat.
Greiðsluskylda lánasamninganna skal aldrei vera meiri en hámark ríkisábyrgðar, sbr. 3. mgr. Nú virðist á einhverjum tíma stefna í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta."
Til þess að skoða nákvæmlega hvaða áhrif þessi efnahagslegu viðmið hafa á greiðslur okkar, þurfum við fyrst að finna út hver landsframleiðslan var fyrir grunnárið 2008 í evrum, sem þarf smá útreikning.
Skoðum fyrst landsframleiðslu Íslands síðustu árin samkvæmt tölum Hagstofunnar:
http://www.hagstofan.is/Hagtolur/Thjodhagsreikningar/Thjodhagsreikningar
og klikka síðan á:
Landsframleiðsla eftir ársfjórðungum 1997-2009
Til að ná í tölurnar sem notaðar eru í grafinu, þá valdi ég "Mælikvarði: Verðlag hvers árs". Þar sem ég gat ekki valið allt árið 2009, þá tók ég bara fyrstu tvo ársfjórðungana fyrir hvert ár (1999-2009). Ég hefði líka getað notað tölurnar fyrir fullt ár, en þá hefði ég þurft að reikna einhvern vegin upp árið 2009, sem gæti valdið mögulegri skekkju vegna árstíðar-breytinga.
Ef við skoðum grafið nánar þá virðist þetta ekki líta svo illa út. Mikil hækkun síðasta áratuginn og núna er jafnvel orðinn jákvæður vöruskiptajöfnuður, sem jafnar út að hluta lækkunina á hinum liðunum. Samkvæmt tölunum þá virðist vera aðeins smá fall í prósentum núna síðasta árið 2009. Enda hafa ýmsir pólitíkusar verið að halda því fram opinberlega að ástandið sé nú raunverulega ekki svo slæmt, þar sem landsframleiðslan hafi aðeins fallið örfá prósent frá toppnum 2007-2008.
Af hverju, er þá svona mikil kreppa á Íslandi, ef hún kemur ekki fram í landsframleiðslunni? Svarið fellst í að skoða tölurnar í erlendri mynt, til dæmis evrum. Hagstofan birtir, því miður, aðeins sínar tölur í íslenskum krónum, þannig að við þurfum að umreikna tölurnar yfir í evrur. Til þess notaði ég meðalgengi fyrstu 6 mánuði hvers árs, sem hægt er að ná í á vefsíðu Seðlabankans hérna:
http://www.sedlabanki.is/?PageID=37
Ár | Meðalgengi |
1999 | 78.77723 |
2000 | 71.37379 |
2001 | 83.27983 |
2002 | 87.06600 |
2003 | 84.46232 |
2004 | 87.45167 |
2005 | 80.69339 |
2006 | 85.42963 |
2007 | 87.58443 |
2008 | 110.12600 |
2009 | 162.77070 |
Eins og sést hefur gengið verið frekar stöðugt í kring um 70-85 krónur síðustu 10 árin fyrir utan 2008-2009, þar sem það um það bil tvöfaldaðist. Ef við umreiknum nú landsframleiðsluna yfir í evrur fyrir hvert ár, þá fáum við graf sem lítur mun verra út heldur en fyrra grafið með íslensku krónunum:
Landsframleiðslan hefur því fallið frá toppnum 2007 um rúmlega 40% þegar hún er reiknuð út í evrum. Þetta er einfaldlega kreppan í hnotskurn þar sem krónan hefur helmingast í virði!
Samkvæmt fyrirvörunum, þá er viðmiðunar-árið 2008. Ef við notum sömu aðferð þá fáum við út að landsframleiðslan fyrir allt árið 2008 var 1476 milljarðar íslenskra króna, sem miðað við meðalgengið 127.4551 á evru, gefur 11584 milljónir evra. Til samanburðar má geta að landsframleiðslan fyrsta helming 2009, var 722 milljarðar íslenskra króna, eða 4434 milljónir evra miðað við meðalgengið janúar-júní 162.7707. Ef við áætlum til einföldunar að seinni helmingur verði nokkuð álíka og fyrri helmingurinn (mögulega ónákvæmt, þar sem lokatölurnar fyrir 2009 verða ekki birtar fyrr en á næsta ári), þá þýðir þetta væntanlega landsframleiðslu upp á 8868 milljónir evra eða lækkun upp á 23% milli ára mælt í evrum.
Af hverju er allir þessir útreikningar svona nauðsynlegir? Jú, af því fyrirvararnir sem fjárlaganefnd Alþingis samdi voru raunverulega mjög snjallir og takmörkuðu greiðslu hvers árs við 6% af uppsöfnuðum hagvexti reiknuðum í pundum/evrum. Til þess að við komumst í þá stöðu að við þurfum að byrja að borga, þarf efnahagur Íslands fyrst að vinna upp þessa 23% lækkun sem þegar hefur orðið síðan 2008. Og það verður aðeins ef við komumst einhvern tíman upp úr kreppunni og/eða gengið fari að hækka aftur.
Ef fyrirvörunum er breytt núna, þannig að þessi efnahagslegu viðmið virka ekki lengur, þá getum við lent í því að borga, jafnvel þó allt sé hér enn í kalda koli.
Óviðunandi niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 19.10.2009 kl. 18:40 | Facebook
Athugasemdir
Mjög flott úttegt.
Ég var einmitt búinn reka augun í þessi efnahagslegu viðmið. þar sem þau er aflögð fyrir vexti sem verða megin hluti greiðslnanna, að þá er í raun verið að leggja þessi efnahagslegu viðmið niður.
Í raun stendur ekki steinn yfir steini af þessum fyrirvörum ef þetta verður samþykkt.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, 19.10.2009 kl. 00:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.