Gerði Gylfi reiknisvillu upp á 1 milljarð evra (180 milljarða króna)?
22.9.2009 | 00:12
Ég var að skrifa síðustu blogg-færslu, þar sem kom fram að vextir af IceSave láninu yrðu samtals eitthvað nálægt 2 milljörðum evra, þegar ég mundi eftir því að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra hafði skrifað grein í sumar, þar sem hann reiknaði út frá að vextirnir yrðu u.þ.b. 1 milljarður evra.
Það er það mikill munur á þessum tveimur upphæðum (1 milljarður evra er 180 milljarðar króna á núverandi gengi), að hann verður ekki skýrður út svo einfaldlega með mismunandi reikniaðferðum eða forsendum.
Ég fann á vefsíðu fjármálaráðuneytisins upprunalegu grein Gylfa sem birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2009:
Í fimmtu málsgrein kemur fram eftirfarandi:
"Dugi eignir Landsbankans gamla til að greiða 75% af forgangskröfum fellur því rétt um milljarður evra af höfuðstólnum á íslenska tryggingasjóðinn. Því til viðbótar koma vextir sem væru einnig rétt um milljarður evra eða samtals um tveir milljarðar evra."
Ekki er gefið upp í greininni hvernig Gylfi reiknaði út aðeins 1 milljarð evra í vöxtum. Til að kanna betur hvor vaxta-upphæðin er rétt, setti ég upp reiknilíkan miðað við eftirfarandi forsendur:
- Bresku og hollensku lánin eru samtals upp á rétt rúmlega 4 milljarða evra
- Vextirnir eru 5.55% reiknaðir af höfuðstólnum frá 1. janúar 2009
- Greiðslurnar eru eftir tveimur mismunandi aðferðum eftir því hvort þær eru fyrir eða eftir júní 2016
- 3 milljarðar (75%) fáist greiddar beint úr Landsbankanum fram til 2016
- Júní 2016 tekur ríkistryggingin við á eftirstöðvunum auk áunnina vaxta
- Á tímabilinu frá júní 2016 til 2024 eru 32 ársfjórðungslegar greiðslur
- Hver greiðsla er jöfn upphæð reiknuð út frá eftirstöðvum og vöxtum 2016
- Auk þess þarf að greiða jafnóðum vexti á eftirstöðvum fyrir hvern ársfjórðung eftir júní 2016
Þessar forsendur eru allar samkvæmt upprunalegu lánasamningunum, þannig að Gylfi ætti að vera að nota þær sömu.
Hérna er útreikningurinn á fyrstu 7 og hálfu árunum til júní 2016. Til einföldunar geri ég fyrst ráð fyrir að Landsbankinn greiði sömu upphæð árlega, sem er líklega frekar bjartsýn spá ef eitthvað er.
Ár | Höfuðstóll byrjun árs | Landsbanki greiðslur | Vextir 5.55% | Ógreiddir vextir | Höfuðstóll plús vextir |
2009 | 4072 | 407 | 226 | 226 | 3891 |
2010 | 3665 | 407 | 216 | 442 | 3700 |
2011 | 3258 | 407 | 205 | 647 | 3498 |
2012 | 2850 | 407 | 194 | 841 | 3285 |
2013 | 2443 | 407 | 182 | 1024 | 3060 |
2014 | 2036 | 407 | 170 | 1193 | 2822 |
2015 | 1629 | 407 | 157 | 1350 | 2572 |
2016 | 1222 | 204 | 71 | 1421 | 2439 |
Samtals | 1018 | 3054 | 1421 |
Eins og sést af þessari töflu þá eru eftirstöðvarnar á höfuðstólnum 1018 milljónir evra og samtals áunnir ógreiddir vextir 1421 milljónir evra í júní 2016. Jafnvel þó greiðslurnar frá Landsbankanum komi hraðar inn þá verða vextirnir nær alltaf yfir einum milljarði evra. Eina leiðin til að koma vöxtunum niður í eitthvað nálægt einum milljarði væri ef það tækist að gera Landsbankann upp á aðeins þremur árum. Það er, greiddar yrðu 3 milljarðar evra úr þrotabúinu fyrir lok 2011, sem er náttúrulega enginn möguleiki.
En það eru ekki aðeins greiddir vextir fyrstu 7 árin, heldur einnig næstu 8 árin allt til 2024. Ef við leggjum útreikninginn hér að ofan til grundvallar, þá tekur ríkistryggingin yfir 2439 milljónir evra (höfuðstóll 1018 plús 1421 ógreiddir vextir) í júní 2016, sem greiða þarf upp með vöxtum næstu 8 árin með 32 ársfjórðungsgreiðslum.
Ár | Höfuðstóll byrjun árs | Ógreiddir vextir | Höfuðstóll plús vextir | Jafnar greiðslur | Vextir 5.55% |
2016 | 1018 | 1421 | 2439 | 152 | 67 |
2017 | 954 | 1333 | 2287 | 305 | 121 |
2018 | 827 | 1155 | 1982 | 305 | 104 |
2019 | 700 | 977 | 1677 | 305 | 87 |
2020 | 573 | 800 | 1372 | 305 | 70 |
2021 | 445 | 622 | 1067 | 305 | 53 |
2022 | 318 | 444 | 762 | 305 | 36 |
2023 | 191 | 267 | 457 | 305 | 19 |
2024 | 64 | 89 | 152 | 152 | 3 |
Samtals | 0 | 0 | 0 | 2439 | 558 |
Ég sé því ekki betur heldur en að Gylfi hafi einfaldlega gleymt að bæta við vextina upp á 558 milljónir evra fyrir árin 2016-2024. Ef við leggjum saman vextina 1421 og 558 þá fáum við samtals 1979 eða rétt undir 2 milljarða evra.
Ef einhver getur sýnt fram á hvernig Gylfa tókst að reikna vextina niður í 1 milljarð evra eða að ég hafi gert einhver mistök, þá væri gaman að heyra af því hérna að neðan í athugasemdunum. Annars verðum við bara að gera ráð fyrir að Gylfi hafi gert reiknisvillu í greininni upp á 180 milljarða króna!
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 26.1.2010 kl. 00:54 | Facebook
Athugasemdir
Við erum þá að tala um að greiða upphæðirnar í tveimur öftustu dálkunum til baka eða 3,048 milljarða evra, ekki satt? Þ.e. rétt undir 500 milljarða miðað við gengi í dag.
Marinó G. Njálsson, 22.9.2009 kl. 08:32
Rétt Marínó, u.þ.b. 1 milljarð í höfuðstólsgreiðslur og 2 milljarða í vaxtagreiðslur. Það sem er athyglisverðast af mínum dómi, er að vegna hve hlutfall vaxta er hátt, að tímasetningin á endurgreiðslunum frá Landsbankanum skiptir líklega mun meira máli heldur en sjálft endurgreiðslu hlutfallið.
Ég fæ út 554 milljarða í Íslenskum krónum miðað við gengið í dag (3048x181.73). Það er rétt að athuga, að þessar tölur hafa ekki verið núvirtar, ef bera á þær saman við efnahagstölur í dag.
Bjarni Kristjánsson, 22.9.2009 kl. 09:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.