Hvernig tókst okkur að semja svona illilega af okkur?

Ég er búinn að vera að hugsa nokkuð um það hvernig í ósköpunum Íslenska samninganefndin endaði á að samþykkja IceSave samninginn eins og hann var skrifaður, þar sem það er núna orðið nokkuð augljóst að þarna sömdum við illilega af okkur.  Ég þekki náttúrlega ekki söguna innanbúðar, en með því að lesa á milli línanna ýmsar fréttir og greinar, þá er ég kominn með eftirfarandi kenningu um hvernig þetta skeði:

Bretarnir og Hollendingarnir greinilega notuðu mjög færa og reynda sérfræðinga í samningagerð, á meðan Ísland valdi sendiherra frá Danmörku, fyrrverandi stjórnmálamann, Svavar Gestsson, til að leiða Íslensku nefndina. 

Mín kenning er sú að Bresku/Hollensku samningarmennirnir notuðu vel þekkt, en mjög snjallt samningsbragð.  Fyrst, komu þeir inn í viðræðurnar á fullum krafti og krefjast endurgreiðslu á láninu á mjög skömmum tíma með háum vöxtum.  Láta Íslendingana síðan svitna á þessu í nokkra mánuði.

Síðan gefa þeir allt í einu eftir með kröfur Íslendinga um lengri lánstíma og lægri vexti, jafnvel möguleika á að endursemja seinna ef forsendur breytast.  Þetta var það sem Steingrímur J. kallaði betri niðurstöðu heldur við höfðum mátt búast við.

Í staðinn, vildu þeir fá út frá sanngirni nokkur atriði leyst: "jafna" meðferð fyrir þeirra eigin tryggingasjóði, gjaldfellingar-klásúlur með fullum rétti til að afturkalla lánin, leynd yfir samningunum sjálfum, og síðan algjört afsal á þjóðarréttindum Íslendinga.

Mín skoðun er að þessi niðurstaða hafi verið markmið þeirra allt frá byrjun og íslenska samninganefndin með reynsluleysi sínu og óþolinmæði, einfaldlega ekki gert sér grein fyrir þessu.  Það var aðeins eftir að skrifað hafði verið undir samningana, sem voru síðan ekki birtir og greindir af óhaðum sérfræðingum fyrr en þó nokkru seinna, að vandamálin komu upp á yfirborðið, en þá var það því miður orðið of seint.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband