Icesave 3 samningum lekið: Er Ragnar Hall ákvæðið inni eða úti?

Ég er búinn að vera lesa í gegnum nýju IceSave 3 samningana sem lekið var núna í nótt á netinu:

http://icesave3.wordpress.com

Þetta eru langir samningar og heilmikið lögfræðitorf.  Það sem ég var sérstaklega að leita eftir, var hvort Ragnar Hall ákvæðið hefði verið tekið út eða ekki. Eins og ég reiknaði út í síðustu færslu, þá hefur það ákvæði gríðarleg áhrif á heildargreiðslur Íslendinga, jafnvel þótt búið sé að lækka vaxtaprósentuna niður í 3%.

Varðandi Breska samninginn, þá er birt svokallað "Settlement Agreement side letter" frá FSCS, sem nefnir að bæði "Original Settlement Agreement" frá 5. Júní 2009 og "Amended Settlement Agreement" frá 19. Október 2009 séu ennþá í fullu gildi, fyrir utan smávægilegar breytingar, sem ekki varða Ragnar Hall ákvæðið.

Varðandi Hollenska saminginn, þá er birtur nýr "Pari Passu Agreement" við DCB þar sem segir í 2.1(a) að kröfur DNB skuli vera jafnréttháar TIF og 2.1(b)TIF eða DNB eigi að greiða mismuninn til baka ef Landsbanki borgar meira til hins aðilans. Þetta er því upprunalega Ragnar Hall ákvæðið. Ákvæði 2.1(c) fylgir síðan á eftir. Það er nokkuð langt og flókið, en í stuttu máli segir það að:

ef (i) Íslenskur dómstóll ákveður (A) að TIF eða DNB hafi forgang og (B) þetta sé ekki andstætt úrskurði EFTA dómstóls, eða (ii) Skilanefnd Landsbankans ákveður að gefa TIF eða DNB forgang, og því er ekki mótmælt af öðrum kröfuhöfum, þá falla niður greiðslurnar frá 2.1(b).

Mér sýnist þetta vera nákvæmlega það sama og við vorum með í Icesave II samningnum, sem táknar að Ragnar Hall ákvæðið fellur því aðeins út ef EFTA dómstóllinn staðfestir Íslenskan dóm eða aðrir kröfuhafar samþykkja ákvörðun skilanefndar Landsbankans.

Eins og ég nefndi í síðustu færslu, er það nær ómögulegt stærðfræðilega að fá út aðeins 50 milljarða í vexti, ef allar endurgreiðslur frá Landsbankanum skiptast jafnt milli FSCS/DNB og TIF.  Ég er því með tvær mikilvægar spurningar:

1) Hefur eitthvað breyst þannig að við höfum tryggingu fyrir því að allar endurgreiðslur frá Landsbankanum renna fyrst til greiðslu á skuld TIF?

2) Ef Ragnar Hall ákvæðið er ennþá mögulega inni, hvernig gat samninganefnd Íslands fengið út 50 milljarða í útreikningum sínum á vöxtunum?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Ég tek undir þessa spurningu. Hlýtur að vera prinsipp atriði.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 14.12.2010 kl. 05:58

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Dáist að öllum þessum pælingum en er ekki að sjá fyrir endann á þessari Icesave martröð? Nú er talið að 93% af Icesave skuldunum sé á reikning í vörslu Englandsbanka og verslunarkeðjan Iceland er í sölumeðferð. Talað er að söluverðið sé um einn og hálfur milljarður breskra sterlingspunda, um 270 miljarðar ISKR. Nú er rúmlega 60% í eigu Landsbanka þannig að 150-160 eigum við eftir að reikna með úr því.

Er ekki best að sjá til hvernig þetta skilar sér?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 14.12.2010 kl. 09:33

3 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Sælir Mosi,

Þetta er einhver misskilningur hjá þér með 93%-in.  Samkvæmt síðustu skýrslu skilanefndar Landsbankans:

http://www.lbi.is/library/Opin-gogn/skyrslan/Q3_Financial_information_open_side.pdf 

þá hafði 30. september 2010 þegar safnast inn 292.7 milljarðar íslenskra króna, þar af 134.3 milljarðar í London.  Síðan gera þeir ráð fyrir að 53 milljarðar í viðbót safnist inn fyrir lok þessa árs, sem gerir samtals 346 milljarða.  Miðað við evru-gengið 154.4 þennan sama dag, þá er heildarskuldin á IceSave u.þ.b. 624 milljarðar (4043 x 154.4). 

Samtals hafa því safnast inn við lok ársins rétt rúmlega 55% af eignum Landsbankans miðað IceSave skuldina (346 / 624), en samkvæmt Ragnar Hall ákvæðinu rennur aðeins 51% af þeirri upphæð til greiðslu okkar á IceSave.  Því hafa aðeins 28% af IceSave skuldinni safnast inn fyrir okkur (51% x 55%).

Hvaðan koma þá þessi 93% sem þú vísar í? 

Samkvæmt "estimated cash-flow" sem LBI gefa upp á blaðsíðu 10, þá munu aðrir 284 milljarðar safnast inn á árunum 2011 til 2013, og 201 milljarður eftir 2014.  Að lokum kemur NBI skuldabréf nýja Landsbankans upp á 284 milljarða til greiðslu á árunum 2014 til 2018.  Þetta gerir samtals 1138 milljarða sem skilanefndin gerir ráð fyrir að safnist inn í heildina.

Ef þú síðan tekur síðan 51% af 1138, þá færðu út 580 milljarða sem renna til TIF, samkvæmt Ragnar Hall ákvæðinu.  Að lokum tekur þú hlutfallið 580 / 624 og þá færðu út loksins 93%-in sem þú ert að vísa í. 

Vandamálið er að þessar 93% endurheimtur koma ekki inn að fullu fyrr en í kring um 2018-2019.  Á meðan eru fullir vextir reiknaðir af eftirstöðvum IceSave skuldarinnar, sem ég reiknaði í upprunalegu færslunni 10. desember yrði vel yfir 100 milljarðar plús höfuðstólsgreiðslur eftir 2016.

Það er eitt vandamál í viðbót sem lítið hefur verið fjallað um hingað til.  Allar þessar áætluðu endurheimtur eru háðar því að nýji Landsbankinn muni yfirleitt getað greitt skuldabréf sitt upp á 284 milljarða í erlendri mynt árin 2014-2018, sem ég reyndar stórefast um. Ef nýji Landsbankinn fellur og getur ekki greitt skuldabréfið, þá mun Íslenska ríkið bera ábyrgð óbeint á þessum 284 milljörðum, ef IceSave skuldin hefur ekki ennþá verið gerð upp við Breta og Hollendinga. 

Ef hins vegar Ragnar Hall ákvæðið fellur út, þá getum við auðveldlega greitt upp IceSave skuldina að fullu fyrir 2014, og óbeina ábyrgðin af nýja Landsbankanum getur því ekki lengur fallið á okkur.

Skilanefnd Landsbankans er örugglega með virðið á verslunarkeðjunni Iceland þegar inni í sínum útreiknginum.  Ef söluverðið verður að lokum hærra heldur en þeir gera ráð fyrir þá mun auðvitað meira renna til þrotabús Landsbankans.  En ef Ragnar Hall ákvæðið er ennþá inni, þá munu aðeins 51% af þeirri aukningu renna til Íslands. 

Icesave deilan verður því miður ekki leyst með óskhyggju einni saman, heldur aðeins með að samningar séu gerðir sem eru byggðir á raunverulegum forsendum og réttum útreikningum.

Bjarni Kristjánsson, 14.12.2010 kl. 13:36

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessir samningar eru því miður byggðir á ágiskunum og hæpnum forsendum. Það má vel vera að þeir séu skárri en hinir fyrri, en óvissan um verðmat og endurheimtur er samt mikil, og áhættan þar af leiðandi umtalsverð.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.12.2010 kl. 06:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband