Færsluflokkur: Vefurinn
Bretar og Hollendingar hafa aðeins tvo raunverulega kosti með IceSave samninginn, báðir slæmir (fyrir þá)
30.9.2009 | 16:43
Eftir að Ögmundur sagði af sér í dag, þá er orðið nokkuð öruggt að það er ekki meirihluti á þinginu til að breyta fyrirvörunum að kröfu Breta og Hollendinga. Óháð því hvort ríkisstjórnin stendur eða fellur, sem er innanlandsmál, þá má alls ekki gleyma að það skiptir mjög miklu máli hvernig nákvæmlega við svörum þessum athugasemdum um fyrirvarana.
Bretar og Hollendingar eru búnir að vera mjög snjallir, hvernig þeir hafa haldið á samningamálunum og eftirmálunum um fyrirvarana. Í stað þess að svara opinberlega, þá senda þeir okkur þessar athugasemdir með beiðni um fullan trúnað. Og hérna springur síðan allt upp í loft!
Ef við gerum ráð fyrir að þessar athugasemdir, sem ég fjallaði nánar í þessari blogg-færslu, séu alls ekki ásættanlegar, þá skiptir öllu máli að láta Bretana og Hollendingana strax vita að fyrirvararnir standa óbreyttir og að það sé ekki þingmeirihluti til að breyta þeim. Síðan þarf ríkisstjórnin (hver sem hún verður) að sitja róleg og ekki semja neitt meira um málið þar til þeir neyðast til að svara okkur opinberlega. Lærum nú einu sinni af þeim hvernig eigi að semja!
Þetta setur nefnilega Bretana og Hollendingana í frekar slæma klípu. Þeir hafa raunverulega aðeins tvo mögulega kosti í stöðunni og báðir eru frekar slæmir fyrir þá:
- Þeir geta annarsvegar samþykkt fyrirvarana án nokkurra breytinga eins og þeir hafa tvímælalaust rétt á. Þetta gerir það að verkum að allir fyrirvararnir, sem vernda nokkuð vel okkar hagsmuni, fái sjálfkrafa fullt gildi. Ég mun fara nánar út í seinna hvaða áhrif fyrirvararnir hafa á mögulegar IceSave greiðslur okkar í síðari blogg-færslu.
- Þeir geta hinsvegar ákveðið að fella upprunalega IceSave samninginn úr gildi samkvæmt ákvæðum 3.1(b) og 3.2 í samningnum sjálfum. Þetta vilja þeir líklega fyrir alla muni forðast, þar sem núverandi samningur inniheldur bókstaflega allt sem þeir vildu fá fram.
Ef þeir velja seinni kostinn, þá neyðast þeir einfaldlega til að semja upp á nýtt um IceSave (geta líka reynt að bíða lengur til að sjá hvort við gefumst upp). Eina vandamálið fyrir okkur er að á meðan munu hvorki AGS eða Norðurlöndin ganga frá sínum lánum sem setur mörg miklvæg endurreisnar-mál í biðstöðu (ástæðan fyrir öllum látunum núna í Jóhönnu). Það verður tvímælalaust mjög slæmt fyrir okkur að bíða lengur, en það væri enn verra að láta Breta og Hollendinga kúga okkur til að samþykkja samning sem við getum ekki borgað.
Birtingarmynd vandræðanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Endilega ekki hætta á Mogga-blogginu út af Davíð!
27.9.2009 | 13:22
- Í fyrsta lagi er færslum á blogg-inu ekki stjórnað af Morgunblaðinu, fyrir utan því að sjá til þess að sjálfsögðum almennum reglum og skilmálum sé framfylgt.
- Í öðru lagi þá eru núna yfir 20.000 blogg á blog.is, með nýjar færslur skrifaðar á nokkurra sekúndna fresti. Mogga-bloggið hefur náð með þessu að verða lifandi netsamfélag sem hefur raunveruleg áhrif á umræðuna í þjóðfélaginu (sjá til dæmis nýjustu tillögur um breytingar á verðtryggðum lánum).
- Ef bloggarar hverfa af blog.is, þá munu þeir óhjákvæmilega dreifast á mörg mismunandi blogg-kerfi. Sumir munu fara á blogg.visir.is, á meðan aðrir fara á WordPress, Blogspot, eða eitthvað annað. Þó það sé tæknilega frekar auðvelt að tengja saman blogg á ólíkum kerfum, þá verður það einfaldlega ekki sama reynslan, eins og þegar flest allir eru tengdir beint á sama stað.
- Það að svona stór hluti þjóðarinnar taki þátt í blogg-i er nær örugglega einsdæmi í heiminum. Eftir tölum Hagstofunar þá er nær hvert einasta heimili á landinu með internet-tengingu og af þeim eru 15% að skrifa blogg og 65% að lesa blogg. Þetta kemur að hluta til frá því hve auðvelt Morgunblaðið og Vísir hafa gert fyrir almenning að setja upp sínar eigin blogg-síður.
- Tekjur Morgunblaðsins af blogg-inu eru nær örugglega litlar sem engar. Mjög fáir taka líklega eftir banner-auglýsingunni sem birtist á hægri hliðinni, hvað þá að þeir klikki á hana. Tekjur Morgunblaðsins koma náttúrulega aðallega frá sömu liðum eins og öðrum dagblöðum, auglýsingum og áskrift.
- Þátttaka á Mogga-blogginu er ekki á neinn hátt hægt að túlka sem stuðning við Morgunblaðið eða ritstjórnarstefnu þess. Eftir því sem ég hef best séð hingað til þá virðist meirihlutinn af blogg-urunum oftar vera ósammála fréttunum og skoðunum sem birtast þar, frekar en sammála, og veita því nauðsynlegt aðhald.
- Að síðustu, eftir því sem ég hef heyrt þá notar Davíð Internet-ið mjög lítið og honum er líklega nokk sama hve margir nota Mogga-bloggið. Ef eitthvað er, þá verður hann líklega bara ánægður ef þeir sem eru ósammála honum hverfi eitthvert annað svo færri taki eftir þeim.
Einmitt með því að halda áfram blogginu á Íslandi, þá sjáum við til þess að rödd allra í þjóðfélaginu sé örugglega heyrð hjá þeim sem með valdið fara.
Davíð: Mun nýta reynslu úr fyrri störfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)