Var upprunalegi IceSave samningurinn kannski bara tær snilld?


Ég hef verið að velta því nokkuð fyrir mér núna síðustu daga af hverju Bretar og Hollendingar hafa ekki enn gefið álit sitt á þeim fyrirvörunum sem samþykktir voru á ríkisábyrgðinni.  Á þessum tímapunkti hafa their ekkert gefið upp opinberlega og virðast aðeins hafa byrjað óformlegar viðræður milli embættismanna og við ríkistjórnina í kyrrþey.  Af hverju þessi leynd aftur?  Getur það verið að þeir séu komnir í hnút með samninginn og eigi kannski ekkert gott svar í stöðunni?

Skoðum málið aðeins út frá sjónarhóli Breta og Hollendinga:

1. Fyrst semja þeir við íslensku samninganefndina í vor, sem óneitanlega stóð sig mjög illa, og fengu í gegn nær bókstaflega allt það sem þeir mögulega vildu:

a) Full endurgreiðsla á tryggingarupphæðinni óháð endurheimtum frá Landsbankanum

b) Óafturkallanleg og skilyrðislaus ábyrgð Íslenska ríkisins á allri tryggingarupphæðinni

c) Greiðslur á vöxtum fyrir allri trygginarupphæðinni frá byrjun 2009, jafnvel þó þeir fáist ekki greiddir úr þrotabúinu

d) Fullt afsal á öllum mögulegum lagalegum réttindum Íslendinga og fall frá öllum mögulegum vörnum ef málið fer einhversstaðar fyrir dóm

e) Jafnræði á greiðslum fyrir sína eigin tryggingasjóði jafnvel þó það samrýmist ekki íslenskum gjaldþrotalögum

f) Mörg og mjög víðtæk vanefndartilvik sem gefa þeim góða möguleika á að afturkalla allt lánið nær hvenær sem er

g) Full leynd á efni samningsins (sem nokkuð síðar voru opinberaðir)

h) Full eftirgjöf á friðhelgi og öðrum þjóðréttindum Íslendinga

(Öll þessi atriði komu smátt og smátt í ljós yfir sumarmánuðina, þegar samningarnir voru loksins gerðir opinberir og farið var yfir þá af óháðum aðilum og ýmsum sérfræðingum, auk ótalins fjölda af bloggurum.  Við þetta myndaðist ómótstæðileg pressa á þingmenn bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, og varð þess valdandi að málið komst aðeins í gegn með sterkum fyrirvörum).

2. Alþingi Íslendinga eftir miklar rökræður og samningsþóf, samþykkir að lokum ríkisábyrgðina með fyrirvörum.  Af öllum fyrirvörunum, eru þrír mikilvægastir:

a) Ríkisábyrgðin takmarkast á hverju ári við 6% af VEXTI þjóðarframleiðslu í pundum/evrum á tímabilinu frá árinu 2008. Þar sem búast má við að þjóðarframleiðsla íslendinga muni ekki hækka mikið næstu árin og jafnvel minnka, þá mögulega takmarkar þetta ákvæði mjög, hve mikið við munum þurfa að borga.

b) Að kröfu Indefence hópsins, var undir lokin bætt við ákvæði sem tiltekur að ríkisábyrgðin sjálf tekur aðeins gildi ef Bretar og Hollendingar samþykkja fyrst fyrirvarana.

c) Allar eftirstöðvar lánsins sem eru ekki greiddar árið 2024 falla niður.

3. Bretar og Hollendingar líta svo á að þeir hafi samið beint við Íslensku ríkisstjórnina, samningurin við hana hafi þegar verið undirritaður, og að það var alfarið hennar hlutverk að koma ríkisábyrgðinni óbreyttri í gegnum þingið.  Þetta greinilega tókst ekki!

Spurningin er þá hvaða mögulega kosti hafa Bretar og Hollendingar, miðað við þessa stöðu sem komin er upp núna?

A) Þeir geta samþykkt fyrirvarana óbreytta.  Þetta gerir það að verkum að í stað þess að fá greitt frá Íslendingum um það bil 300 milljón pund/evra á ári í afborganir og vexti þessi átta ár milli 2016 og 2024, verða greiðslurnar á hverju ári háðar aukningu á þjóðarframleiðslu í pundum og evrum, miðað við árið 2008.  Til dæmis ef þjóðarframleiðslan eykst um 2% ári næstu 15 árin, verður þetta u.þ.b 150 milljón pund/evra á ári, eða nálægt helmingur.  Ef vöxturinn verður meiri eða minni, þá hækka/minnka greiðslurnar sem því nemur.

B) Þeir geta neitað að samþykkja fyrirvarana.  Þá fellur ríkisábyrgðin sjálfkrafa niður  og samningurinn þar með líka.  Þetta er augljóslega frekar slæmur kostur fyrir þá, þar sem upprunalegi samningurinn innihélt allt það sem þeir vildu fá fram eins og kom fram hér að ofan.

C) Þeir geta reynt áfram að nota AGS sem þvingun á Íslendinga til að fá alla upphæðina greidda.  Vandamálið fyrir þá er að það er nú þegar komið fram í fréttum út um allan heim, að Íslendingar hafi samþykkt ríkisábyrgðina, jafnvel þó það væru mikil mótmæli innanlands gegn því.  það yrði því erfitt að halda því fram ennþá að Íslendingar neiti alfarið að borga.

D) Þeir geta haldið því fram að við höfum brotið upprunalega samninginn.   Þetta er möguleiki og ef svo fer, þá verðum við um leið að koma okkar sjónarmiðum strax á framfæri erlendis.  Sjá fyrri færslu 63 manna samninganefnd að semja við sjálfa sig! þar sem nánar er fjallað um þetta.

E) Þeir geta reynt að semja upp á nýtt við Íslensku ríkisstjórnina.  Þetta er það sem líklega verður úr að lokum.  Í þetta skipti yrði þó líklegt að íslenska samninganefndin mundi vera mun betur undirbúin og samþykki ekki sjálfkrafa lélegan samning sem ekki væri hægt að koma í gegnum þingið.

Af þessu má sjá að samningsstaða Íslendinga er nú mögulega orðin mun betri heldur en hún var í upphafi.  Þetta er þrátt fyrir að allt ferlið hafi í raun verið samfelld röð af stórum mistökum sem gátu haft skelfilegar afleiðingar.  Niðurstaðan varð samt að lokum líklega eins og best var á kosið.

Í raun má því kannski kalla upprunalega IceSave samninginn bara "tær snilld", og þá alls ekki með sömu meiningu eins og hjá einum af Landsbanka-stjórnandanum fyrir hrunið  Smile.

 


mbl.is InDefence: Aum frammistaða stjórnvalda í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Fyrirvarar" Alþingis hafa nákvæmlega enga þýðingu í þessu sambandi. Það nægir Bretum og Hollendingum að lýsa því einhliða yfir. Alþingi er hinsvegar búið að samþykkja ríkisábyrgð á þessum "samningi" sem er náttúrulega enginn samningur í þeim skilningi, sem venjulega er lagður í það orð, heldur einhliða ákvörðun andskota okkar um fjárhagslega kúgun og eyðileggingu Íslands og Íslendinga. Bretinn er þolinmóður. Nú nær hann öllu aftur, sem hann varð að láta af hendi í landhelgissamningunum á sínum tíma.

Broccoli (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 04:29

2 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Broccoli, ef Bretarnir og Hollendingarnir lýsa því einhliða yfir að þeir samþykki ekki "fyrirvarana", þá tekur ríkisábyrgðin einfaldlega ekki gildi.  Eins og kemur fram hér að ofan (2b) þá var þessu ákvæði bætt við fyrir tilstuðlan Indefence hópsins og bætir mjög stöðu okkar í þessu tilviki.

Bjarni Kristjánsson, 3.9.2009 kl. 09:37

3 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Bjarni, þó ég sé ekki endilega sammála þér um allt sem þú segir hér þá er ég samt sammála þér að endanlega niðurstaðan, þ.e. samþykkt samningsins með fyrirvörum, var skásta lausnin sem við höfðum. Við vorum jú sammála um þetta löngu áður en þetta varð niðurstaðan. Vissulega vorum við í hroðalegri stöðu, samningar fyrri ríkisstjórnar við Hollendinga (frá 2008) voru ömurlegir og notaðir sem sleggja í samningaviðræðunum. Og við komum til með að borga af Icesave "snilldinni" hvort sem okkur líkar betur en verr. Við megum auðvitað aldrei gleyma hverjir bera ábyrgð á þessum ósköpum, það var ekki núverandi ríkistjórn þótt vissulega hefði mátt keyra harðari samninga.

Guðmundur Auðunsson, 3.9.2009 kl. 14:06

4 Smámynd: Bjarni Kristjánsson

Sælir Mummi,

Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að allir verða að bera fulla ábyrgð á verkum sínum og þeim ákvörðunum sem þeir taka.  Þar á sama við, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, og á hvaða væng stjórnmálanna sem þeir eru. 

Fyrri ríkistjórn ber tvímælalaust mikla ábyrgð á öllum þeim fjöldamörgum mistökum sem þeir gerðu bæði fyrir og eftir hrunið.  En á sama skapi verður núverandi ríkisstjórn að bera ábyrgð á þeim samningum sem þeir skrifa undir, óháð því hvaða minnisblöð/viljayfirlýsingar sem fyrri ríkistjórnin samþykkti (Memorandum of Understanding eru raunverulega ekki fullgildur alþjóðasamningur, þó sá sem skrifað var undir við Hollendinga, óneitanlega gerðu málið erfiðara fyrir núverandi samninganefnd).  Það hefur nú samt líklega verið samninga-taktík hjá þeim að halda viljayfirlýsingunni til streitu.  Sjá Hvernig tókst okkur að semja svona illilega af okkur? færsluna sem er með mínar vangaveltur um þetta atriði.

Að mínu áliti vorum við alveg ótrúlega heppin að það var ekki fullur meirihluti hjá ríkisstjórninni til að keyra IceSave samninginn í gegn áður en það tókst að greina hann að fullu og finna öll mistökin í honum.  Örfá prósent í síðustu kosningum hefðu getað breytt stöðunni mikið og orðið þess valdandi að ríkisábyrgðin verið samþykkt óbreytt.

Og eins og málið þróaðist, þá var það eiginlega hjálplegt í lokin hvað samningurinn var í raun slæmur, þar sem það auðveldaði þingmönnum hjá öllum flokkum að sameinast um gerð fyrirvarana í fjárlaganefndinni.  Sú samstaða náði náttúrulega ekki að halda þegar kom að atkvæðagreiðslunni um sjálfa ríkisábyrgðina, en við því mátti líklega búast.  Það gefur líka ákveðin merki til Breta og Hollendinga að það dugar ekki að beita Íslensku samninganefndinni ofurliði og hörku, það er og verður alltaf Alþingi sem verður að samþykkja samninginn að lokum.

Bjarni Kristjánsson, 3.9.2009 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband